KA sækir Bikarmeistara Vals heim í 8. umferð Pepsi deildar karla sunnudaginn 18. júní klukkan 17:00.
Hér er skemmtileg upphitun fyrir leikinn gegn Val.
Fyrir leikinn er KA í 4. sæti deildarinnar með 12 stig en Valsmenn eru á toppnum með 16 stig, það er því heilmikið undir í leik liðanna. Í síðasta leik gerðu KA og ÍA markalaust jafntefli en þetta var fyrsti leikurinn í sumar þar sem KA tókst ekki að skora. Valsmenn unnu á sama tíma sannkallaðan flautusigur en sigurmark þeirra í 1-2 sigri á Breiðablik kom seint í uppbótartíma.
Valur hefur að skipa mjög sterku liði sem sést best á stöðunni í deildinni. Í liði Vals er Andri Fannar Stefánsson en hann er uppalinn í KA og lék alls 66 leiki í deild og bikar fyrir félagið og gerði í þeim 11 mörk.
KA tók fyrst þátt í Íslandsmótinu í knattspyrnu sumarið 1929 og mætti þar liði Vals. Liðin gerðu 0-0 jafntefli en ákveðið var að liðin skyldu mætast aftur til að fá niðurstöðu í viðureignina. Síðari leikinn vann Valur 4-0 en KA liðið lenti í töluverðum vandræðum á heimleiðinni sem tók tvo sólarhringa og þurftu leikmenn til að mynda að ganga yfir Vatnsskarðið til Skagafjarðar!
Alls hafa liðin mæst 34 sinnum í deild og bikar og hefur KA unnið 6 leiki, 8 sinnum hafa liðin gert jafntefli og Valsarar hafa unnið 20. Í þessum leikjum hefur KA skorað 37 mörk gegn 79. Áhugavert er að nefna það að liðin hafa mæst fjórum sinnum í bikarnum og hafa allir leikirnir farið í framlengingu!
Síðast þegar liðin mættust þá var það í undanúrslitum Borgunarbikarsins árið 2015. KA hafði slegið út tvö úrvalsdeildarfélög á leið sinni í leikinn og fékk draumabyrjun þegar Elfar Árni Aðalsteinsson skoraði úr vítaspyrnu. Gestirnir jöfnuðu hinsvegar metin þegar Orri Sigurður Ómarsson skoraði eftir klafs í teig KA manna. Fleiri urðu mörkin ekki og var því farið í vítaspyrnukeppni. Þar brást Valsmönnum ekki bogalistin, fóru með sigur af hólmi og urðu á endanum Bikarmeistarar.
Leikurinn á sunnudaginn verður sýndur á Stöð 2 Sport en við hvetjum að sjálfsögðu alla sem geta til að mæta á völlinn og styðja KA til sigurs. Það hefur verið frábær stemning hjá KA mönnum á útileikjunum í sumar og um að gera að halda því áfram, sjáumst á Valsvelli og áfram KA!