Í kvöld mættust Víkingur R. og KA í 16. umferð 1.deildar karla. Leiknum lauk með bragðdaufu markalausu jafntefli. KA voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en í þeim síðari snérist dæmið við og voru það heimamenn sem voru líklegri. Í síðari hálfleik varði síðan Sandor Matus vítaspyrnu frá Hirti Hjartarssyni meistaralega og bjargaði því að gestirnir kæmust yfir. Lokastaðan því 0-0.
Víkingur R. 0 - 0 KA
0-0 Hjörtur Júlíus Hjartarsson brenndi af víti ('67)
Lið KA í dag: Sandor Matus, Ómar Friðriksson, Atli Sveinn Þórarinsson, Ivan Dragicevic, Darren Lough, Gunnar Valur Gunnarsson (Davíð Rúnar 81.mín), Brian Gilmour, Ævar Ingi Jóhannesson (Orri 78.mín), Bjarki Baldvinsson, Bessi Víðisson (Andrés 88.mín) og Carsten Pedersen.
Bekkur: Fannar Hafsteinsson, Andrés Vilhjámsson, Orri Gústafsson, Davíð Rúnar Bjarnason, Jón Heiðar Magnússon, Gunnar Örvar Stefánsson og Jakob Hafsteinsson.
Ein breyting var gerð á byrjunarliði KA frá tapinu gegn Leikni í síðustu umferð. Bjarki Baldvinsson kom inn í byrjunarliðið í staðinn fyrir Hallgrím Mar sem var fjarri góðu gamni vegna meiðsla sem hafa verið að plaga hann. KA léku í dag eins og svo oft áður á útivöllum í sumar í ljósbláu Íslandsmeistara búningunum sínum. Dómari leiksins í dag var Garðar Örn Hinriksson.
Fyrri hálfleikurinn var ekki ósvipaður þeim sem var leikinn hér á Akureyrarvelli síðastliðin laugardag gegn Leikni. Semsagt afar rólegur til að byrja með og lítið um færi og bæði liðin að þreifa fyrir sér. Heimamenn í Víking áttu fyrsta færi leiksins þegar að Viktor Jónsson slapp inn fyrir vörn KA en var í þröngu færi og Sandor varði vel frá honum og varnarmenn okkar náðu að bæja hættunni frá.
Fyrsta skot KA að marki í leiknum kom eftir 16. mínútna leik og segir það mikið um hversu rólega leikurinn fór af stað. Það átti Bessi en það var laflaust og átti Ingvar Kale í marki Víkinga í engum vandræðum með það. Eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn urðu okkar menn bara betri og betri og voru mun líklegri í sóknum sínum en heimamenn í Víking. Heimamenn voru síðan stálheppnir að lenda ekki manni færri þegar að Óttar Steinn Magnússon gaf Carsten Pedersen olnbogaskot beint fyrir framan nefið á Garðari Erni dómara en hann sá einungis ástæðu til að gefa Óttari gult spjald og má með sanni segja að Víkingar hafi sloppið vel þar.
Á 39. mínútu kom svo besta færi KA í leiknum. Ómar átti þá góða fyrirgjöf á Carsten sem fékk boltann rétt fyrir utan markteig og var einn og óvaldaður en skaut boltanum himinhátt yfir í sannkölluðu dauðafæri. Stuttu seinni tók Ómar langt innkast þar sem boltinn endaði hjá Bjarka sem skaut boltanum á lofti í fyrsta og hitti boltann mjög vel en hann smaug framhjá markinu og var þetta það síðasta markverða í fyrri hálfleiknum og gengu því liðin til búningsherbergja eftir markalausan fyrri hálfleik.
Seinni hálfleikurinn hófst eins og sá fyrri og var mjög rólegur og gerðist ekkert markvert fyrstu tuttugu mínútur seinni hálfleiksins. Það var ekki fyrr en 68. mínútu leiksins sem umdeilt atvik átti sér stað. Víkingar áttu þá aukaspyrnu úti við hliðarlínu og spyrntu fyrir markið. Eitthvað virtist Garðar Örn Hinriksson sjá vítavert inn í teig og dæmdi vítaspyrnu á KA. Carsten Pedersen hlaut gult spjald og var raunar afar erfitt að sjá á hvað Garðar var að dæma og virtist sem þetta hafi verið eðlilegt klafs í teignum.
Hjörtur Júlíus Hjartarson steig á punktinn og skaut niðri hægra megin á markið en besti maður KA í leiknum Sandor Matus varði vítið meistaralega og varnarmenn KA náðu að koma boltanum úr teignum. Eftir þetta fjaraði leikurinn raunar út og voru það Víkingar sem sóttu meira það sem eftir lifði leiks án þess þó að skapa sér einhvern teljandi færi. Það var síðan í uppbótartíma sem Hjörtur Júlíus Hjartarsson fékk að líta rauða spjaldið eftir að hafa hrint tveimur leikmönnum KA með stuttu millibili og uppskar tvö gul spjöld fyrir athæfin og þar með rautt.
Markalaust jafntefli því niðurstaðan sem verður að teljast sanngjörn úrslit miðað við gang leiksins.
KA-maður leiksins: Sandor Matus (Var frábær í dag. Varði vítaspyrnuna í seinni hálfleik meistaralega og var öruggur í öllum sínum aðgerðum í leiknum. Bjargaði raunar stigi fyrir KA í dag)
Skammt er stóra högga á milli. Næsti leikur liðsins er aðeins eftir fjóra daga eða á þriðjudaginn þegar að Haukar koma norður í heimsókn. Leikurinn hefst kl. 19.00 og hvetjum við alla til að fjölmenna á völlinn.