Lokahóf knattspyrnudeildar KA

Mynd/Magnús Sigurólason.
Mynd/Magnús Sigurólason.

Knattspyrnudeild KA hélt lokahóf sitt í Hofi laugardaginn 21. september. Vel var mætt og tókst það afar vel til. 

Vinir Móða kusu Hallgrím Mar Steingrímsson besta leikmann meistaraflokks í sumar. Sama gerðu leikmenn, þjálfarar og stjórn knattspyrnudeildar. Er Hallgrímur afar vel að þessum verðlaunum kominn en hann var markahæsti leikmaður KA liðsins í sumar með 7 mörk. Einnig átti hann flestar stoðsendingar en þær voru 8 talsins.

Fannar Hafsteinsson var síðan kosinn efnilegastur en hann lék tvo leiki í marki KA í sumar ásamt því að spila einn leik með u-19 landsliði Íslands í sumar gegn Skotum. Fannar er mjög vel að þessum verðlaunum kominn.

Árni Jóhannsson fékk til varðveislu í eitt ár Dorrann en það er viðurkenning sem Vignir Þórmóðsson fyrrum formaður knattspyrnudeildarinnar stofnaði og er til minningar um Steindór Gunnarsson heitinn en hann var öflugur bakhjarl knattspyrnudeildar KA og ók um á samskonar bíl og gripurinn sem Árni hlaut. Dorrinn er veittur þeim KA manni sem er knattspyrnudeild ómetanlegur bakhjarl og er Árni svo sannarlega vel að þessum titli kominn.