Lokahóf KA: Callum bestur og Tufa áfram

Túfa mun stýra KA liðinu áfram næstu tvö árin
Túfa mun stýra KA liðinu áfram næstu tvö árin

Í gærkveldi eftir sigurleik KA á nágrönnum okkar í Þór var lokahóf knattspyrnudeildar KA haldið í KA-Heimilinu. Þar var tilkynnt að Sr­djan Tufed­gzic oftast nefndur Tufa yrði áfram þjálfari KA næstu tvö árin en Tufa tók við sem þjálfari meistaraflokks KA eftir að Bjarni Jóhannesson hætti á miðju sumri.

Callum Williams var kjörinn besti leikmaður liðsins á tímabilinu af leikmönnum sjálfum og stjórn knattspyrnudeildar. Davíð Rúnar Bjarnason var aðeins einu atkvæði frá Callum en báðir áttu þeir mjög gott sumar.

Ævar Ingi Jóhannesson var valinn efnilegasti leikmaður liðsins og Elvar Árni Aðalsteinsson var markahæsti leikmaður liðsins með 12 mörk í 1. deildinni.

Vinir Móða afhentu „Móðann“ en í ár var það þjálfarinn okkar hann Tufa sem hlaut sæmdarheitið. Vignir Þormóðsson afhenti svo „Dorra“ en það eru stuðningsmannaverðlaun gefin til minningar um Steindór Gunnarsson, en þau eru nákvæm eftirgerð af Benz bifreið sem Dorri ók um á. Handhafi Dorra í ár er Gústaf Baldvinsson en hann er knattspyrnudeild gríðarlega mikill og góður haukur í horni.

Eðlilega var mikið um gleði á lokahófinu eftir magnaðan sigur á Þór en lokahófið var opið fyrir alla stuðningsmenn að þessu sinni sem setti skemmtilegan svip á hófið. Knattspyrnudeild KA verðlaunaði Schiötharana fyrir stuðninginn í sumar en Schiöthararnir eru einmitt stuðningsmannahópur KA og fór mikið fyrir þeim í sumar.


Hér má sjá tilþrif úr stórsigri KA á Þór frá því í gær, lokatölur 0-3!


Hér má svo sjá myndband sem Þórir Tryggvason ljósmyndari tók af stuðningsmönnum KA undir lok leiksins.