KA - Víkingur R. á laugardaginn

Sandor  og félagar mæta Víking R
Sandor og félagar mæta Víking R
Á laugardaginn 8. júní mæta Víkingar frá Reykjavík í heimsókn. Um er að ræða fyrsta heimaleik sumarsins sem leikinn verður á Akureyrarvelli.  Flautað verður til leiks kl 14.00. Víkingar eru með sjö stig eftir fjórar umferðir. Víkingar  leika undir stjórn Ólafs Þórðarssonar og honum til aðstoðar er Milos  Milojevic. Byrjun þeirra á mótinu hefur verið með svipuðu sniði og hjá okkar mönnum, semsagt mjög sveiflukennd. Víkingar hafa unnið tvo sterka útisigra  í sínum fyrstu fjórum leikjum, gegn Grindavík og Fjölni, en ekki hefur þeim gengið eins vel á heimavelli en þar hafa þeir tapað gegn Selfossi og gert jafntefli við KF.

Víkingar eru með gríðarlega sterkt lið og það er deginum ljósara að þeir verða í toppbáráttunni í sumar. Liðið hafnaði í 6. sæti á síðasta keppnistímabili og voru það gífurleg vonbrigði enda stefndu þeir upp.  Liðið styrkti sig vel í vetur með nokkrum sterkum leikmönnum.  Ber þar helst að nefna Dofra Snorrason frá KR, Ingvar Þór Kale frá Breiðabliki og Igor Taskovic. Í herbúðum Víkinga er einnig einn af markahæðstu leikmönnum fyrstu deildar, Aron Elís Þrándarson og verða okkar menn að hafa góðar gætur á honum sem og gamla brýninu Hirti Hjartarssyni en hann hefur skorað tvö mörk í sumar.

Úr okkar herbúðum er það að frétta að Darren Lough verður fjarri góðu gamni, en hann tekur út leikbann eftir að hafa fengið að líta rauða spjaldið í seinasta leik gegn  Leikni R.  Vonir standa hinsvegar til þess að fámennt verði á meiðslalistanum að þessu sinni, menn eru að koma til baka.  Carsten Pedersen, Bessi Víðisson, Fannar Frey Gíslason, Ævar  Ingi Jóhannessson, og Gunnar Valur hafa allir verið að glíma við meiðsli og það munar um minna.

Leikurinn hefst eins og áður sagði á slaginu kl 14.  Verðurspáin er góð en búast má við 14 stiga hita og logni meðan á leik stendur og  því enginn ástæða  fyrir  því að mæta ekki.  Einnig minnum við á að hinir stórglæsilegu KA treflar  verða að sjálfsögu til sölu á leiknum.  Þeir eru algjör skyldueign hjá hverjum einasta stuðningsmannni K.A.

- Aðalsteinn Halldórsson