Eftir að hafa verið 1-0 undir í hálfleik sýndi KA mikinn karakter í seinni hálfleik og breytti stöðunni sér í vil í 3-1. HK náði hinsvegar að klóra í bakkann og lauk leiknum með 2-3 sigri KA.
HK 2 3 KA
1 0 Hákon Ingi Jónsson (16)
1 1 Elfar Árni Aðalsteinsson (48) Stoðsending: Juraj
1 2 Aleksandar Trninic (65) Stoðsending: Elfar
1 3 Elfar Árni Aðalsteinsson (76) Stoðsending: Juraj
2 3 Ágúst Freyr Hallsson (81)
Mörkin í leiknum:
Lið KA:
Rajko, Hrannar Björn, Guðmann, Davíð Rúnar, Baldvin, Archange, Aleksandar, Ásgeir, Hallgrímur Mar, Juraj og Eflar Árni
Bekkur:
Aron Dagur, Callum, Ólafur Aron, Pétur Heiðar, Orri, Kristján Freyr og Bjarki Þór.
Skiptingar:
Ásgeir út Bjarki Þór inn (86)
Juraj út Pétur Heiðar inn (88)
Hallgrímur út Callum inn (90)
Fyrri hálfleikur var afar bragðdaufur af okkar hálfu og einhver deyfð yfir mannskapnum. KA hélt þó boltanum töluvert meira en lítið var um marktækifæri. Heimamenn í HK voru klókir á 16. mínútu leiksins þegar að Ágúst Freyr vann boltann á miðjunni og gaf hann á Bjarna Gunnarsson sem átti laglegan sprett upp hægri vænginn og gaf fyrir markið og þar mætti á fjærstöngina, Hákon Ingi Jónsson sem renndi boltanum í netið. 1-0 fyrir HK sem voru sprækir í skyndisóknum sínum í fyrri hálfleik.
Eina hættulega tækifæri KA í hálfleiknum kom þegar að Juraj átti fyrirgjöf fyrir markið og boltinn endaði hjá Elfari Árna sem var felldur niður af varnarmanni HK en ekkert dæmt.
Í seinni hálfleiknum var síðan allt annað upp á teningnum. KA liðið mætti tvíelfd til leiks og ætlaði sér öll þrjú stigin í þessum leik. Liðið var ekki lengi að jafna metin en eftir aðeins þrjár mínútur í síðari hálfleik átti Juraj hornspyrnu sem Elfar Árni gerði vel að skalla í netið. Staðan 1-1 og KA liðið hungrað að sækja öll þrjú stigin.
KA hélt áfram að pressa að marki heimamanna og bar það árangur á 65. mínútu þegar að Hrannar átti langt innkast inn í teiginn þar sem boltinn barst til Elfars Árna sem gaf út í teiginn á Aleksandar sem hamraði boltann snyrtilega í netið og kom KA yfir 1-2.
Það var svo þegar að rúmur stundarfjórðungur var til leiksloka að Grímsi tók aukspyrnu hægra megin á vellinum snöggt og skipti yfir á vinstri vænginn til Juraj sem tók varnarmenn HK á og gaf fyrir markið þar sem Elfar Árni sneyddi boltann með hausnum í netið. Annað skallamark Elfars í dag og staðinn því orðinn 1-3 KA í vil og útlitið orðið gott.
Heimamenn í HK náðu þó að klóra í bakkann og var þar að verki Ágúst Freyr Hallsson á 81. mínútu. Einstaklingsframtak af bestu gerð. Tók nokkra KA menn á og nelgdi boltanum í stöng og inn eftir góðan sprett upp vinstri vænginn.
Leiknum lauk svo með 2-3 sigri KA og gríðarlega mikilvæg þrjú stig í toppbaráttunni. Úrslitin þýða það að KA er komið aftur í toppsætið með 39 stig. Einu stigi meira en Grindavík. Sigur í næsta leik þýðir einfaldlega það að KA muni leika í deild þeirra bestu næsta sumar.
KA-maður leiksins: Elfar Árni Aðalsteinsson (2 mörk og stoðsending. Tvö snyrtileg skallamörk frá Elfari í dag sem er sannkallaður gammur í teignum.)
Næsti leikur KA er af dýrari gerðinni. Risa leikur og er hann laugardaginn n.k. þann 3. september þegar að við fáum Selfyssinga í heimsókn á Akureyrarvöll. Hefst sá leikur kl. 16.00 og hvetjum við alla KA-menn nær og fjær að mæta á völlinn og styðja við bakið á liðinu í þessum mikilvæga leik. Áfram KA!