KA úr leik í Lengjubikarnum

KA tók á móti Grindavík í Boganum í undanúrslitum Lengjubikarsins í dag. Liðin mættust einnig í undanúrslitum keppninnar í fyrra og mátti því búast við hörkuleik sem úr varð.

KA 0 - 1 Grindavík 
0-1 Gunnar Þorsteinsson ('57)

Það var alveg ljóst að hvorugt liðið hafði áhuga á að fá á sig mark og var fyrri hálfleikur ansi tíðindalítill þó KA hafi verið ögn sterkari aðilinn. Cristian Martinez Liberato markvörður KA þurfti hinsvegar að fara útaf strax á 13. mínútu og í hans stað kom Aron Elí Gíslason.

Það var þó meira líf í síðari hálfleiknum og gestirnir fóru að ógna meira. Það var svo á 57. mínútu sem að Gunnar Þorsteinsson skoraði fyrir Grindavík eftir laglegt spil. KA liðið reyndi hvað það gat að jafna metin en gekk erfiðlega að finna pláss enda vörðust gestirnir aftarlega og með mörgum mönnum.

Á lokamínútunum pressaði KA liðið ansi stíft en inn vildi boltinn ekki þrátt fyrir ágæt tækifæri og niðurstaðan því 0-1 tap. Það verða því Grindvíkingar sem fara í úrslitaleik Lengjubikarsins í ár rétt eins og í fyrra.

Okkar lið er hinsvegar að fara í æfingaferð til Spánar og mun liðið leika tvo æfingaleiki gegn Keflavík og HK.