KA mætti til Grindavíkur í 10. umferð Inkasso deildarinnar. Fyrir leikinn voru liðin í 1. og 3. sæti deildarinnar og mátti búast við hörkuleik sem úr varð.
Hér má sjá mörkin úr útsendingu KA-TV
Grindavík 2 - 2 KA
0-1 Juraj Grizelj ('3)
0-2 Hallgrímur Mar Steingrímsson ('43) Stoðsending: Elfar Árni
1-2 Fransisco Eduardo Cruz Lemaur ('47)
2-2 Jósef Kristinn Jósefsson ('82)
Lið KA:
Rajko, Hrannar, Guðmann, Davíð Rúnar, Ívar Örn, Aleksandar, Almarr, Ásgeir, Hallgrímur Mar, Juraj og Elfar Árni.
Bekkur:
Fannar, Baldvin, Halldór Hermann, Ólafur Aron, Pétur Heiðar, Orri og Archange.
Skiptingar:
Ásgeir út - Halldór Hermann inn ('16)
Juraj út - Archange inn ('75)
Hrannar út - Baldvin inn ('90)
KA hafði einungis unnið eina viðureign af síðustu 15 gegn Grindavík en okkar menn voru staðráðnir í að breyta þeirri staðreynd. Juraj Grizelj kom KA yfir strax á 3. mínútu þegar hann skoraði glæsilegt mark af kantinum, lyfti boltanum snyrtilega yfir Hlyn í markinu og draumabyrjun staðreynd.
Ásgeir Sigurgeirsson sem hefur verið funheitur að undanförnu, en hann var búinn að skora í fjórum leikjum í röð, varð fyrir hnjaski og þurfti að fara útaf en vonandi eru þetta ekki of alvarleg meiðsli en þetta leit ekki nógu vel út á vellinum.
Grindvíkingar réðu svo ferðinni en KA liðið varðist vel og tókst heimamönnum ekki að skapa sér mikið, hinsvegar gekk okkar mönnum erfiðlega að halda boltanum og virtist vera að menn vildu strax halda fengnum hlut.
En á 43. mínútu fengu okkar menn algjöra gjöf þegar Hlynur Örn í marki Grindavíkur sendi knöttinn rakleiðis á Elfar Árna sem var óeigingjarn og renndi honum á Hallgrím sem gat lítið annað gert en að renna boltanum í autt netið og staðan allt í einu orðin 0-2 og okkar menn í lykilstöðu.
Grindvíkingar eru hinsvegar með hörkulið og það tók þá rétt rúmlega mínútu að koma sér aftur inn í leikinn í síðari hálfleik. Fransisco Eduardo Cruz Lemaur náði að pota boltanum í markið uppúr hornspyrnu og þar með varð ljóst að þetta var orðinn leikur á ný.
Áfram hélt því leikurinn að spilast þannig að heimamenn spiluðu boltanum sín á milli á sama tíma og KA liðinu gekk erfiðlega að halda honum og skapa sér færi. Það var svo á 82. mínútu sem að Jósef Kristinn skoraði jöfnunarmarkið og sá til þess að KA myndi ekki stinga alfarið af á toppi deildarinnar.
KA-maður leiksins: Guðmann Þórisson (Það mæddi mikið á vörninni í Grindavík og Guðmann fór fyrir henni. Hann átti svakalega tæklingu í fyrri hálfleik þegar hann stöðvaði sóknarmann heimamanna sem var að sleppa í gegn.
Næsti leikur KA er laguardaginn næstkomandi, 16. júlí þegar að við tökum á móti nágrönnum okkar í Þór, þetta er leikurinn sem við erum búin að bíða eftir gott fólk og ljóst að við þurfum að troðfylla stúkuna. Leikurinn hefst kl. 16:00 og við skulum mæta tímanlega og vinna baráttuna um bæinn, sigur myndi einnig koma okkur í frábæra stöðu þegar tímabilið er hálfnað, áfram KA!