Það er sannkallaður stórleikur á morgun, miðvikudag, þegar KA tekur á móti FH í 15. umferð Pepsi deildar karla á Greifavellinum klukkan 18:00. Það er gríðarleg barátta á öllum vígsstöðvum í deildinni og það lítur út fyrir að hvert einasta stig muni telja gríðarlega í lok sumars.
Fyrir leikinn er KA í 7. sæti með 18 stig á meðan FH er í því 5. með 22 stig. Það er stutt upp í baráttuna um 4. sætið nái strákarnir að landa sigri gegn sterku liði FH en á sama tíma er líka stutt í liðin fyrir neðan en Fylkir í 10. sætinu er með 15 stig.
Það er því gríðarlega mikilvægt að við mætum á völlinn á morgun og styðjum okkar lið. Strákarnir eru búnir að vera mjög flottir að undanförnu og eiga það svo sannarlega stuðninginn skilinn.