KA sótti 3 stig á Seltjarnarnesið

Halldór Hermann í baráttunni (mynd: Eva Björk)
Halldór Hermann í baráttunni (mynd: Eva Björk)

KA mætti Gróttu í miklum baráttuleik á Vivaldi vellinum á Seltjarnarnesi í 4. umferð 1. deildar karla. Veðrið hafði mikil áhrif á leik dagsins en bæði var sterkur vindur og þegar leið á leikinn fór að rigna. Menn áttu á tíðum í erfiðleikum með að hafa stjórn á boltanum í þessum aðstæðum en KA menn þó alltaf sterkari aðilinn, en þetta var fyrsti leikur KA í rauð/hvítu varabúningum sínum.

Grótta 0-1 KA
0-1 Ævar Ingi Jóhannesson 83. mín

KA lék gegn vindinum í fyrri hálfleiknum sem reyndist á köflum erfitt enda erfiðara að koma boltanum frá marki. Strax á fyrstu mínútu leiksins komst Juraj Grizelj í fínt færi eftir sendingu frá Ævari Inga en Árni Freyr varði í marki Gróttu. Atli Sveinn átti svo skalla eftir horn en hitti ekki markið.

Elfar Árni komst síðan í dauðafæri eftir að hafa betur gegn Benis og leikið lipurlega á Guðmund Martein en skot Elfars fór hinsvegar í varnarmann og sóknin rann út í sandinn. Það var því markalaust í hálfleik en menn vissu það að væri góður möguleiki að klára leikinn í síðari hálfleiknum með vindinn í bakið.

Okkar menn hófu síðari hálfleikinn af krafti og sóttu ákaft en inn vildi boltinn ekki á sama tíma voru heimamenn í vandræðum með að fóta sig með vindinn á móti sér. Þegar 10 mínútur lifðu leiks fékk KA aukaspyrnu á vítateigslínunni og eftir töluvert bras að stilla boltanum upp þrumaði Jóhann Helgason boltanum í vegginn.

Stuttu síðar eða á 83. mínútu náði Fannar boltanum og kom boltanum í leik og KA sótti hratt upp völlinn, Ævar Ingi fékk svo laglega sendingu inn fyrir og ískaldur vippaði hann boltanum yfir Árna Frey í markinu og kom KA yfir 0-1. Markinu var fagnað vel og innilega með stuðningsmönnum KA sem voru þó nokkrir og létu vel í sér heyra.

Stigunum þremur var svo siglt í hús á lokametrunum og gríðarlega mikilvægur sigur staðreynd og KA heldur því áfram á sigurbraut og virkilega jákvætt að sjá liðið klára leiki sem þennan og að þetta er þriðji leikurinn í sumar þar sem mark hjá KA á lokamínútunum er að skila stigum í hús.

Næsti leikur KA er á þriðjudaginn 2. júní gegn Álftanesi í Bikarnum og fer leikurinn fram á KA-vellinum


Hér má sjá markið hans Ævars Inga sem réði úrslitum í dag