Knattspyrnudeild Hattar og Knattspyrnudeild KA hafa gert með sér samstarfssamning. Samningurinn hefur það að markmiði að efla starf beggja knattspyrnudeilda og auka samstarf félaganna.
Öllum iðkendum í yngri flokkum Hattar stendur til boða að mæta á æfingar hjá KA á meðan þeir dvelja á Akureyri yfir stutta stund. Það sama á við um iðkendur KA þegar þeir eru í heimsókn á Egilsstöðum. Sé áhugi hjá KA iðkendum að fara á æfingar hjá Hetti skal senda tölvupóst á André Solorzano yfirþjálfara yngri flokka hjá Hetti andre10msa@gmail.com til að fá upplýsingar um æfingar.
Samstarfið á einnig að efla félögin faglega þar sem þjálfarar fá aðgang að þjálfurum hjá hinu félaginu. Árlega munu þjálfarar á vegum KA fara til Egilsstaða og vera með æfingar fyrir afreksefni Hattar. Efnilegustu drengir Hattar í 3. flokki fá boð um að æfa með KA yfir stutta stund. Ef félögin eru sammála um að ef leikmaður sem hefur lokið grunnskóla hafi þau gæði að geta spilað í efstu deild innan fárra ára fær hann boð um að koma inn í afreksstarf KA. Ef samstarfið gengur vel verður það vonandi útvíkkað með Þór/KA sem sér um kvennastarfið á Akureyri frá 3. flokki.
Samstarfið handsöluðu þeir Aðalbjörn Hannesson yfirmaður knattspyrnumála hjá KA, Guðmundur Bj. Hafþórsson formaður rekstrarfélags Hattar og Sævar Pétursson framkvæmdarstjóri KA.