KA mætir Grindavík í Boganum á Skírdag

KA tekur á móti Grindavík í undanúrslitum Lengjubikarsins í Boganum á morgun, fimmtudag. Leikurinn hefst kl. 14:00 og tryggir sigurliðið sér þátttökurétt í úrslitaleik Lengjubikarsins.

Grindavík kemur úr riðli 4 í A-deild Lengjubikarsins þar sem þeir báru m.a. sigurorð af FH og Fylki. Einu töpuðu stig Grindvíkinga voru gegn Þór, þar sem liðin léku í Akraneshöllinni í febrúar og endaði sá leikur 0-0.

Grindavík og KA hafa lengi eldað grátt silfur saman, bæði lið fóru upp úr Inkasso-deildinni sumarið 2016 og þá mættust þau í undanúrslitum Lengjubikarsins í fyrra þar sem Grindvíkingar unnu í vítakeppni, það verður því væntanlega hart barist á morgun!

Eins og áður segir hefst leikurinn 14:00 í Boganum á morgun, fimmtudag (Skírdag). Sjáumst þar og áfram KA!