KA lagði Þrótt 5-1, komið í undanúrslit

Elfar Árni skoraði tvívegis í öruggum sigri
Elfar Árni skoraði tvívegis í öruggum sigri

KA mætti suður og lék gegn Þrótturum í lokaumferð Lengjubikarsins í gær. Strákarnir voru með pálmann í höndunum eftir magnaðan 4-0 sigur á Breiðablik í síðustu umferð og dugði því stig til að tryggja sæti í undanúrslitum keppninnar.

Þróttur R. 1-5 KA 
0-1 Hallgrímur Mar Steingrímsson ('29) 
0-2 Elfar Árni Aðalsteinsson ('53) 
0-3 Archange Nkumu ('73) 
1-3 Markaskorara vantar ('76) 
1-4 Elfar Árni Aðalsteinsson ('87) 
1-5 Archange Nkumu ('91)

Það hefur verið hrein unun að fylgjast með KA á undirbúningstímabilinu til þessa og það breyttist sko ekki í gær. Hallgrímur Mar Steingrímsson kom KA yfir með laglegu marki á 29. mínútu og var staðan 0-1 í hálfleik.

Flóðgáttirnar hinsvegar opnuðust í þeim síðari og tvöfaldaði Elfar Árni Aðalsteinsson forystuna strax á 53. mínútu. Archie Nkumu kom KA loks í 3-0 á 73. mínútu en Aron Þórður Albertsson minnkaði muninn fyrir Þróttara skömmu síðar.

KA menn voru hinsvegar alls ekki hættir og Elfar Árni og Archie bættu báðir við mörkum fyrir leikslok og lokatölur því 1-5 sigur fyrir KA. Liðið vann alla leiki sína í riðlakeppninni og stendur því uppi sem öruggur sigurvegari.

Strákarnir eru því komnir áfram í undanúrslit keppninnar og mæta þar liði Grindavíkur en þessi sömu lið mættust einmitt líka á sama stigi keppninnar í fyrra og þá unnu Grindvíkingar í vítakeppni.

Leikurinn gegn Grindavík fer fram á laugardaginn og það í Boganum og hvetjum við alla KA menn til að drífa sig á völlinn og styðja strákana áfram í sjálfan úrslitaleikinn, áfram KA!