KA fer heldur betur vel af stað í Lengjubikarnum en liðið vann nú góðan 2-3 sigur á KR í Egilshöll og er með fullt hús stiga ásamt Breiðablik eftir þrjár umferðir.
KR 2 - 3 KA
0-1 Elfar Árni Aðalsteinsson ('9)
1-1 Óskar Örn Hauksson ('24)
2-1 Óskar Örn Hauksson ('57)
2-2 Daníel Hafsteinsson ('68)
2-3 Frosti Brynjólfsson ('69)
2-3 Óskar Örn Hauksson ('86, misnotað víti)
Leikurinn fór fram í Egilshöll og fóru okkar menn svo sannarlega vel af stað. Elfar Árni Aðalsteinsson skoraði fyrsta mark leiksins strax á 9. mínútu eftir góða sendingu frá Hrannari Birni.
Óskar Örn Hauksson jafnaði metin fyrir KR á 24. mínútu og var staðan 1-1 þegar flautað var til hálfleiks. Óskar var svo aftur á ferðinni á 57. mínútu þegar hann kom KR-ingum yfir í 2-1 en okkar lið er ekki beint þekkt fyrir að gefast upp og Daníel Hafsteinsson jafnaði metin á 68. mínútu eftir góðan undirbúning hjá Hallgrími Mar.
Ekki tók það strákana langan tíma að ná svo forystunni því Frosti Brynjólfsson sá til þess aðeins mínútu síðar og það aftur eftir undirbúning Hallgríms. Mikið líf var í leiknum og fengu KR-ingar vítaspyrnu á 86. mínútu en Cristian Martinez í marki KA varði glæsilega frá Óskari Erni og sá til þess að KA fór með öflugan 2-3 sigur af hólmi.
Frammistaða liðsins í dag var mjög góð og sýnir að við getum beðið spennt eftir komandi sumri. Sérstaklega er jákvætt að sjá unga leikmenn á borð við Daníel og Frosta skora mikilvæg mörk en Frosti er fæddur árið 2000.
Næsti leikur er heimaleikur í Boganum gegn Breiðablik þann 11. mars næstkomandi. Má reikna með að það verði úrslitaleikur um sigur í riðlinum enda liðin jöfn á toppnum með 5 stiga forskot á næsta lið.