KA - Keflavík á laugardaginn á Akureyrarvelli

Fyrsti leikur sumarsins á Akureyrarvelli!
Fyrsti leikur sumarsins á Akureyrarvelli!

KA leikur sinn fyrsta leik á Akureyrarvelli í sumar á laugardaginn (4. júní) þegar liðið tekur á móti Keflavík klukkan 14:00.

Það má reikna með hörkuleik enda var liðunum spáð efstu tveimur sætum deildarinnar og sitja þau í 3. og 4. sæti deildarinnar og hefur KA stigi betur. Í sömu umferð mætast Grindavík og Leiknir R og er því innbyrðisviðureign hjá efstu fjórum liða deildarinnar.

Þjálfari Keflavíkur er enginn annar en Þorvaldur Örlygsson en Toddi var einmitt besti leikmaður Íslandsmótsins árið 1989 þegar KA varð Íslandsmeistari. Þá má ekki gleyma því að Þorvaldur var spilandi þjálfari þegar KA fór síðast upp í efstu deild sumarið 2001 sem og þegar liðið náði 4. sætinu í efstu deild sumarið 2002.


Þorvaldur Örlygsson skoraði ótrúlegt mark á Akureyrarvelli þann 30. júní 2002 þegar KA vann öruggan 4-1 sigur á Keflvíkingum.

Við hlökkum til að sjá ykkur en ef þið komist ómögulega á völlinn þá verður KA-TV með beina útsendingu frá leiknum, nánar um það þegar nær dregur. Áfram KA!