KA í lykilstöðu eftir sigur á Leikni

Strákarnir þurfa aðeins 6 stig (Mynd: Sævar Geir)
Strákarnir þurfa aðeins 6 stig (Mynd: Sævar Geir)

KA vann nú rétt í þessu frábæran 3-1 heimasigur á Leikni Reykjavík. Leikurinn var algjör lykilleikur fyrir bæði lið en KA var í 2. sæti fyrir leikinn en gestirnir í 4. sætinu.

KA 3 - 1 Leiknir R.
1-0 Hallgrímur Mar Steingrímsson ('15) Stoðsending: Juraj
2-0 Hallgrímur Mar Steingrímsson ('18, víti) Stoðsending: Almarr
3-0 Juraj Grizelj ('25) Stoðsending: Ásgeir
3-1 Atli Arnarson ('55)

Lið KA:

Rajko, Hrannar Björn, Ólafur Aron, Davíð Rúnar, Baldvin, Archie, Aleksandar, Almarr, Ásgeir, Hallgrímur Mar og Juraj.

Bekkur:

Aron Dagur, Callum, Halldór Hermann, Pétur Heiðar, Orri, Kristján Freyr og Bjarki Þór.

Skiptingar:

Ólafur Aron út – Bjarki Þór inn (’70)
Hrannar út – Pétur Heiðar inn (’79)
Hallgrímur Mar út – Orri inn (’89)

Leikurinn byrjaði fremur rólega og ljóst að hvorugt liðið vildi tapa leiknum. En eftir kortérsleik kom fyrsta markið og þvílíkt mark sem það var. Juraj setti boltann yfir á Hallgrím sem gerði vel í að taka hann niður, sólaði einn varnarmann áður en hann lagði boltann glæsilega í netið.

Í stað þess að leggjast aftar og halda forystunni héldu menn strax áfram að pressa á gestina sem virtust í sjokki eftir markið. Ásgeir gerði afskaplega vel þegar hann kom boltanum í gegnum vörn Leiknismanna og fann þar Almarr sem lék á Eyjólf markvörð sem á endanum tók Almarr niður og vítaspyrna dæmd. Hallgrímur var afskaplega öruggur og sendi Eyjólf í vitlaust horn, staðan 2-0 og aðeins 18. mínútur búnar.

Ekki leið á löngu uns þriðja markið leit dagsins ljós þegar Juraj og Ásgeir komu í skyndisókn. Ásgeir átti flott skot sem var varið en Juraj var vel vakandi og fylgdi á eftir. Staðan orðin 3-0 eftir einungis 25. mínútna leik og staðan orðin vægast sagt góð.

Eftir þetta mark róaðist leikurinn heldur betur og lítið markvert sem gerðist áður en dómari leiksins flautaði til hálfleiks.

Síðari hálfleikurinn hófst á svipuðu róli, Hallgrímur Mar leitaði að sínu þriðja marki sem að kom því miður aldrei. En gestirnir komu sér betur inn í leikinn að nýju þegar Atli Arnarsson skaut að marki þar sem boltinn fór í slánna, niður í jörðina og aftur í slánna. Boltinn var dæmdur inni og smá líf komið aftur í leikinn.

Leiknismenn settu nokkra pressu á okkar menn en án árangurs og frábær 3-1 sigur því staðreynd.

KA-maður leiksins: Hallgrímur Mar Steingrímsson (Var hreint út sagt frábær. Skoraði tvö mörk og það fyrra var glæsilegt. Var síógnandi í leiknum og hélt varnarmönnum gestanna við efnið, með smá heppni hefði hann náð þrennunni.)

Nú þegar aðeins 5 umferðir eru eftir af deildinni er KA með 10 stiga forskot á liðið í 3. sæti og staðan því orðin ansi vænleg. Næsti leikur er útileikur gegn HK á laugardaginn 27. ágúst klukkan 16:00.