Á morgun þriðjudaginn 20. ágúst mæta okkar menn Haukum í 17. umferð 1. deildar karla. Haukar eru í 3. sæti með 28 stig og KA í því sjöunda með 23 stig og því greinilegt að þetta verður hörkuleikur þar sem ekkert verður gefið eftir. Leikurinn hefst kl. 19.00 og verður að eins og ávallt boðið upp á hamborgara og pyslur 45 mínútum fyrir leik.
Haukum hefur gengið afar vel í sumar og liðið verið í toppbaráttu í allt sumar og er í miklu dauðafæri að komast upp í Pepsi-deildina enda er liðið aðeins tveimur stigum frá toppsætinu. Heimavöllur Hauka hefur reynst liðinu vel í sumar hafa 6 af þeim 8 sigrum liðsins í sumar komið þar. Gengi liðsins á útivöllum hefur ekki verið eins gott og hafa þeir verið að tapa dýrmætum stigum í toppslagnum á útivöllum í sumar.
Hafnfirðingar fóru mikinn á leikmannamarkaðnum fyrir tímabil og endurheimtu til sín sterka fyrrum leikmenn liðsins sem hafa svo sannarlega mikilvægir liðinu í sumar. Markahæstir hjá liðinu í sumar eru þeir Brynjar Benediktsson og fyrirliði þeirra Hilmar Trausti Arnarsson. Aðrir leikmenn sem hafa verið iðnir við kolann eru Andri Steinn Birgisson, Hilmar Geir Eiðsson og Hilmar Rafn Emilsson en þeir hafa skorað 4 mörk hver.
Markaskorun hefur verið lítið vandamál hjá Haukum í sumar og hefur liðið skorað 32 mörk í sumar sem er þriðji besti árangurinn í deildinni. En þeir skoruðu einmitt fjögur mörk fyrr í sumar gegn okkar mönnum í afar fjörugum leik sem endaði 4-2 fyrir Haukum. Atli Sveinn og Hallgrímur Mar sáu um markaskorun okkar í þeim leik en mörk Hauka skoruðu Andri Steinn Birgisson, Hilmar Trausti Arnarsson og Hafsteinn Briem sem skoraði tvö mörk.
Eins og fyrir alla leiki KA höfum við fengið vaska KA menn til að reyna að spá fyrir um úrslit leiksins á léttan máta en að þessu sinni eru þeir aðeins tveir.
Spámenn umferðarinnar:
Ágúst Stefánsson, KA-maður:
Það má vægast sagt segja að þetta sumar hafi verið sveiflukennt hjá okkar mönnum. Erfið byrjun, náðu svo að keyra sig í gang og blanda sér í toppbaráttuna en síðustu leikir hafa verið vonbrigði og útlit fyrir að við séum að missa af lestinni. Ég hinsvegar trúi því að sveiflan haldi áfram og okkar menn klári tímabilið með stæl.
Þessi leikur gegn Haukum er gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið og ég geri ráð fyrir að við munum sjá fjörugan og skemmtilegan leik. Sóknarleikurinn verður veigamikill og við fáum einhver mörk, segi að KA vinni leikinn 2-1. Atli Sveinn og Carsten skora mörk okkar manna og þá þykir mér ekki ólíklegt að við fáum á okkur víti sem Sandor ver.
Guðmundur Freyr Hermansson, KA-maður:
Þessi leikur er algjör úrslitaleikur fyrir KA og mun hann skipta sköpum um það hvort liðið verði með í baráttunni um að komast í deild þeirra bestu eða verða áfram í 1. deildinni. Vinnist leikurinn kemst liðið aftur inní pakkann en tapist stig er draumurinn um Pepsi-deildarsæti orðinn ansi fjarlægur.
Ég held að bæði lið muni liggja nokkuð aftarlega í fyrri hálfleik og leggja fyrst og fremst upp með það að halda marki sínu hreinu. Lítið verður um færi í hálfleiknum og barátta mun einkenna leikinn. Leikar munu æsast í síðari hálfleik og bæði lið fá ágætis færi. Um miðjan síðari hálfleik mun Carsten Pedersen koma okkar mönnum yfir með glæsilegum skalla eftir hornspyrnu. Það mun vera eina mark leiksins og gríðarmikilvægur 1-0 sigur mun koma KA-liðinu aftur á sigurbraut.
Við viljum svo hvetja alla að mæta tímanlega á morgun og styðja við bakið á liðinu í mikilvægum leik. Leikurinn hefst eins og áður segir klukkan 19.00 og verður kveikt í grillinu klukkan 18.15 og verður boðið upp á hamborgara og kók á vægu verði. Áfram KA !