KA hársbreidd frá sigri í Ólafsvík

Það var hart barist á Ólafsvík
Það var hart barist á Ólafsvík

KA mætti Víking Ólafsvík á laugardaginn í Ólafsvík, fyrir leikinn höfðu Víkingar tryggt sér efsta sæti deildarinnar, liðið hafði sigrað átta leiki í röð og einnig unnið alla heimaleiki sína þetta sumarið. Það var því erfitt verkefni sem beið KA liðsins að fara til Ólafsvíkur og reyna að stöðva Víkingana.

Víkingur Ólafsvík 0 - 0 KA

Okkar menn hófu leikinn af miklum krafti og var ljóst að liðið ætlaði sér að sækja öll stigin í leiknum. Elfar Árni Aðalsteinsson gerði vel eftir um 10. mínútna leik þegar hann nýtti sér varnarmistök og komst einn í gegn en Cristian Martinez varði virkilega vel frá honum. Örskömmu síðar átti Callum Williams góðan skalla eftir hornspyrnu en heimamenn björguðu á línu.

Þessi byrjun var mikil olía á þann eld sem var hjá fjölmörgum stuðningsmönnum KA sem höfðu gert sér ferð til Ólafsvíkur. Frábært að upplifa stemninguna hjá okkar fólki og ljóst að á stúkunni að sjá hefði mátt ætla að KA væri að leika á heimavelli.

Eftir þetta róaðist leikurinn, KA spilaði öflugan varnarleik á meðan heimamenn náðu að loka betur á sóknartilburði okkar liðs. Vallaraðstæður voru erfiðar en völlurinn var blautur og þungur sem hjálpaði leikmönnum svo sannarlega ekki, þegar flautað var til hálfleiks var staðan því enn markalaus.

Síðari hálfleikur hófst á svipaðan hátt og síðari hluti fyrri hálfleiks, bæði lið vörðust vel og lítið um alvöru færi. Þegar tuttugu mínútur lifðu leiks gerði Josip Serdarusic sig líklegan til að koma sér í færi innan teigs en Björn Pálsson í vörn heimamanna steig í veg fyrir hann og Josip féll til jarðar. Þarna hefðu einhverjir viljað sjá okkar menn fá vítaspyrnu en ekkert var dæmt og áfram hélt leikurinn.

Jóhann Helgason sem hefur verið funheitur upp á síðkastið átti hörkuskot að marki þegar um kortér var eftir en Cristian í markinu varði frá honum en boltinn virtist stefna í bláhornið alveg út við stöng. Víkingar svöruðu með tveimur fínum færum en þeim brást bogalistin og náðu ekki að setja boltann á markið.

Þegar leikurinn var við það að fjara út áttu Hilmar Trausti Arnarsson og Ben Everson góðan samleik sem endaði með því að boltinn hrökk í slánna og sluppu heimamenn þar með skrekkinn. Fleira markvert átti sér ekki stað og markalaust jafntefli því staðreynd.

Ögn svekkjandi að ná ekki sigrinum þar sem okkar menn voru líklegri í leiknum en þegar öllu er á botninn hvolft er mjög sterkt að ná stigi á virkilega erfiðum útivelli og vera fyrsta liðið til að stöðva Víkinga í síðari umferð deildarinnar.

KA liðið á nú einungis tvo leiki eftir og situr í 2. sæti deildarinnar en Þróttarar sem eru helstu keppinautar okkar um sætið léku ekki um helgina. Leik Þróttar og Hauka var frestað og verður hann spilaður á þriðjudeginum 15. september.

Næsti leikur okkar liðs er heimaleikur gegn Grindvíkingum laugardaginn 12. september klukkan 15:00. Við hvetjum að sjálfsögðu alla til að mæta og styðja strákana til sigurs, það var magnað að upplifa stuðninginn við liðið á Ólafsvík og nú bætum við bara við og fáum upp frábæra stemningu næstu helgi á Akureyrarvelli, áfram KA!