Miðvörðurinn Atli Sveinn Þórarinsson er genginn á ný í raðir KA eftir átta ára fjarveru frá sínu uppeldisfélagi. Í dag var gengið frá samningi við Atla Svein sem gildir út tímabilið 2014.
Atli Sveinn er reynslubolti í fótboltanum. Hann spilaði upp alla yngri flokka KA og upp í meistaraflokk. Á árunum 1997 til 1999 spilaði hann 43 leiki
með KA í deild og bikar, fór árið 2000 til Svíþjóðar þar sem hann spilaði til ársins 2004 með Örgyte er hann kom aftur
til KA og spilaði með liðinu eitt keppnistímabil. Frá árinu 2005 hefur Atli Sveinn verið í herbúðum Vals.
Í það heila á Atli Sveinn að baki 282 meistaraflokksleiki í deild og bikar, þar af 179 með Val, 60 með KA og 43 með Örgryte.
Við þetta bætist síðan fjöldi leikja í deildarbikar o.fl. og því eru meistaraflokksleikirnir farnir að nálgast fjórða
hundraðið. Þá á Atli Sveinn níu landsleiki með A-landsliðinu, fjóra U-21 landsleiki og sjö U-19 landsleiki.
„Ástæðan fyrir því að ég ákvað að taka slaginn með KA er að ég skynja núna að það mikill kraftur
í félaginu og mér finnst virkilega vera lag til þess að taka skrefið og koma liðinu upp í efstu deild, þar sem ég tel að það
eigi heima. Ég hef alltaf fylgst með KA-liðinu úr fjarlægð og það er skemmtileg blanda af reyndum KA-mönnum, góðum erlendum leikmönnum
og mjög efnilegum strákum sem eru að koma upp. Síðast en ekki síst hefur félagið fengið til sín mjög góðan
þjálfara, sem verður virkilega gaman að vinna með,“ segir Atli Sveinn, sem hefur meira og minna verið fyrirliði Valsmanna síðan 2007.
„Eftir átta ár í Val fannst mér kominn tími til að breyta til og takast á við nýjar áskoranir. Við hjónin erum
bæði fædd og uppalinn á Akureyri og þar eru okkar rætur. Það hefur hefur lengi blundað í okkur að flytja norður og setjast þar
að og þegar þessi möguleiki kom upp á ákváðum við að taka skrefið og munum flytja öll norður í vor eftir að skóla
lýkur. Við eigum þrjá stráka, fjögurra, sjö og tíu ára, og við reiknum með að þeir muni allir „detta“ inn á
nýja gervigrasvöllinn á KA-svæðinu,“ bætir Atli Sveinn við.
Atli Sveinn er fæddur 1980 og er því 32ja ára gamall. Hann segist alltaf hafa jafn gaman af fótboltanum. „Já, ég hef það og ég
tel mig eiga eftir nokkur ár í boltanum. Ég er í fínu formi en ég neita því ekki að með aldrinum þarf ég að æfa
meira til þess að halda mér í góðu standi. Ég er sannarlega tilbúinn í það verkefni og hlakka til þess að leggja mitt
lóð á vogarskálarnar fyrir mitt gamla uppeldisfélag og um leið að miðla eitthvað af minni reynslu til ungu strákanna. Ég er alinn upp
á KA-svæðinu og það verður virkilega gaman að koma þangað aftur eftir þennan langa tíma og spila á Akureyrarvelli á
nýjan leik. Ég var í KA-liðinu sem féll úr efstu deild haustið 2004 og síðan hefur félagið verið í 1. deild.
Ég hlakka til þess að taka þátt í verkefni að koma félaginu á nýjan leik í efstu deild,“ segir Atli Sveinn
Þórarinsson.
"Þetta eru frábær tíðindi fyrir okkur. Atli Sveinn hefur verið einn af bestu miðvörðum úrvalsdeildarinnar í mörg ár.
Með honum fáum við mikla reynslu og sterkan karakter og um leið erum við að fá gamlan KA-mann til baka sem mun miðla af reynslu sinni til ungu
strákanna okkar. Það að Atli Sveinn mun flytja hingað norður með fjölskyldu sinni er til marks um að hann hefur trú á og vill taka
þátt í því sem við erum að gera. Það gleður mig mjög," segir Bjarni Jóhannsson, þjálfari mfl. KA.
Gunnar Níelsson, formaður knattspyrnudeildar KA, segir mikinn feng í Atla Sveini. „Það er auðvitað ekkert annað en frábært að fá
reynslubolta eins og Atla Svein í okkar raðir. Það er ekki bara mikilvægt að fá mann með alla þessa reynslu inn í liðið, hann er
uppalinn í þessu félagi, þekkir innviði þess og hjarta hans slær með því. Atli Sveinn hefur verið fyrirliði Vals undanfarin
ár og það er ekki að ástæðulausu, hann er leiðtogi inni á vellinum og kann þetta allt saman auk þess að miðla af reynslu sinni og
þekkingu til sér yngri manna. Það er vissulega gleði í okkar hjarta að endurheimta Atla Svein,“ segir Gunnar Níelsson.