KA - Fjarðarbyggð | Reyðarfirði

Túfa vill sigur á morgun!
Túfa vill sigur á morgun!

Á morgun munu okkar menn spila sinn annan leik í 1. deildinni þetta sumarið. Mótherjarnir að þessu sinni eru þeir Fjarðarbyggðarmenn. Leikurinn er spilaður á Reyðarfirði innandyra þar sem engir aðrir vellir eru tilbúnir undan vetri.

Lið Fjarðarbyggðar: Spá Fótbolti.net (10. sæti)

Fjarðarbyggð hefur s.l. ár verið frekar rokkandi lið, en þeir hafa farið upp og niður um deildir trekk í trekk. Fóru alla leið niður í 3. deild en komu sér upp í 1. deild á tveimur árum og féllu svo aftur. Eru nú komnir aftur í deild þeirra næstbestu og ætla sér að gera allt til að halda uppi smá stöðuleika og festa í 1. deildinni.

Brynjar Þór Gestsson er maðurinn í brúnni, en hann leiddi sitt lið til sigurs 2013 í 3. deildinni og sigurs í 2. deildinni í fyrra. Brynjar er nokkuð reynsluríkur en hann hefur verið hjá ÍR, Víði Garði og Álftanesi hér á landi með fínum árangri.

Í fyrra tapaði liðið ekki heimaleik og því komið að okkur að breyta því á morgun (laugardag)

Miklar mannabreytingar hafa orðið á liðinu en akkerið í vörninni, Tommy Nielsen, er horfinn á braut og því stór póstur í varnarleiknum horfinn. En ásamt honum eru 7 aðrir horfnir á braut.
Fékk liðið til sín 8 aðra í staðinn og því um nákvæmlega jafn stóran hóp að ræða og í fyrra.

Til gamans má geta að tveir af þeim leikmönnum sem þeir hafa fengið hafa spilað við ágætan orðstír hjá okkur KA, en það eru þeir Hafþór Þrastarson og Viktor Örn Guðmundsson, en sá síðarnefndi kom til okkar í fyrra og spilaði seinni hluta tímabilsins.

Svona spáir fotbolti.net að líklega byrjunarlið þeirra sé í sumar:
Byrjunarlid Fjardarbyggdar

 

En þá er það að okkar strákum, hópurinn lítur vel út og búnir að æfa vel í vikunni. Menn ætla klárlega að ná í þrjú stigin í þetta skiptið.

Hilmar Trausti kemur inn í hópinn eftir að hafa jafnað sig af meiðslum og verður spennandi að sjá hann spila sinn fyrsta leik, ef hann spilar.

Mikið meira ætlum við nú ekkert að gaspra um okkar menn.

Innbyrðis viðureignir:

Ef við skoðum leiki liðana s.l. 10 ár þá hafa verið 11 viðureignir, 1 í bikar, 2 í Powerademótinu og 8 deildarleikir. Mjótt er á muninum en KA hefur þó vinninginn með naumindum, 3 sigrar 6 jafntefli og 2 töp. Markatalan er 18-14 okkur í hag.

Dómarar leiksins:

Valgeir Valgeirsson verður á flautunni og honum til halds og traust verða þeir Helgi Mikael Jónasson og Jóhann Óskar Þórólfsson.

Stuðningsmaðurinn: Nelsson
Heimasíðan fékk fyrrum formann deildarinnar, Gunnar Níelsson, til að spá fyrir um leikinn og hafði hann þetta um leikinn að segja:

"Þetta verður erfiður, en jafnframt hörkuleikur. Við höfum ekki oft sótt gull í greipar þeirra fyrir austan. En hinsvegar eftir hörku leik og mikla baráttu skorum við 2 mörk á síðustu 20. mínútum leiksins og vinnum 2-0. Elfar Árni með bæði mörk"

Svo mörg voru þau orð og vonandi skilum við okkur heim til Akureyrar með 3 stig í farteskinu eins og Gunnar spáir.

ÁFRAM KA !!