Jóhann Helgason lék á fimmtudaginn sinn 100. leik fyrir KA þegar að liðið bar sigur úr býtum gegn Breiðablik. Jóhann hefur í þessum 100 leikjum skorað 21 mark í deild og bikar fyrir félagið og er hann næst markahæstur af núverandi leikmönnum liðsins. Jóhann er uppalinn KA-maður en hann hefur einnig leikið með Grindavík og á hann að baki 144 leiki fyrir Grindvíkinga. Jóhann á að baki 5 unglingalandsliðsleiki með u-19 og u-21 landsliðum Íslands.
Það er skemmtileg tilviljun að Jóhann lék einmitt sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir KA gegn Breiðablik í 8-liða úrslitum Coca-Cola bikarsins árið 2002 þegar að KA vann öruggan 3-0 sigur og tryggði sér sæti í undanúrslitum.
Jóhann sem oftar en ekki er kenndur við Sílastaði er frábær íþróttamaður og yngri iðkendum félagsins góð fyrirmynd og er barátta hans og hugarfar einstakt.
Við bjóðum Jóa velkominn í 100-leikja klúbbinn og óskum honum innilega til hamingju með þennan glæsilega áfanga!