Í kvöld mættust KA og Tindastóll á Sauðárkróksvelli og lauk leiknum með 2-2 jafntefli þar sem mikið gékk á í fyrri hálfleik en seinni hálfleikur var heldur tíðindalítill. Heimamenn í Tindastól komust yfir eftir rúman hálftíma þegar að Steven Beattie skoraði úr vítaspyrnu. KA menn voru þó ekki lengi að jafna metin þegar að leikmaður Tindastóls skoraði sjálfsmark. Stuttu seinna kom fyrirliði KA, Atli Sveinn Þórarinsson KA yfir eftir hornspyrnu. Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks gerðist svo umdeilt atvik þegar að önnur vítaspyrna var dæmd á KA og Ivan fékk sitt annað gula spjald og heimamenn jöfnuðu metin og þar við sat.
Tindastóll 2 - 2 KA
1-0 Steven Beattie ('31) Vítaspyrna.
1-1 Sjálfsmark Tindastóll ('35), Stoðsending: Hallgrímur Mar
1-2 Atli Sveinn Þórarinsson ('39), Stoðsending: Hallgrímur Mar
2-2 Steven Beattie ('45) Vítaspyrna.
Lið KA í dag: Sandor Matus, Ómar Friðriksson, Atli Sveinn Þórarinsson, Ivan Dragicevic (Rautt 44.mín), Jón Heiðar Magnússon, Davíð Rúnar Bjarnason, Orri Gústafsson (Gunnar Valur 46.mín), Bessi Víðisson (Ævar 73.mín ), Hallgrímur Mar Steingrímsson, Bjarki Baldvinsson, Carsten Pedersen (Darren 85.mín).
Bekkur: Fannar Hafsteinsson, Gunnar Valur Gunarsson, Darren Lough, Gunnar Már Magnússon, Ævar Ingi Jóhannesson, Kristján Freyr Óðinsson, Fannar Freyr Gíslason.
Það var óbreytt lið frá sigrinum gegn BÍ/Bolungarvík í síðasta leik sem hóf leikinn í kvöld. Darren kom inn í hópinn eftir síðasta leik og Brian og Mads voru enþá meiddir. Leikurinn var sá fyrsti á þessu tímabili sem leikinn var á Sauðárkróksvelli í sumar. Völlurinn var fjarska fallegur en virkaði nokkuð laus í sér og áttu leikmenn í miklu basli með að fóta sig fyrstu mínútur leiksins og ekki bætti úr skák að völlurinn var rennandi blautur og einnkenndust fyrstu mínútur leiksins af því að bæði lið væru að venja sig að aðstæðum vallarins.
Fyrsta hættulega færi leiksins áttu heimamenn þegar að Ivan var alltof seinn í tæklingu út við hliðarlínu og Elvar Páll lék knettinum auðveldlega framhjá honum og var kominn í ákjósanlega stöðu og renndi boltanum inn fyrir á Steven Beattie sem náði góðu skoti á markið en Sandor var vandanum vaxinn og varði skot hans úr upplögðu marktækifæri. Næstu mínútur leiksins einkenndust af miklum barning og var lítið um spil á rennandi blautum vellinum. Hættulegasta færi KA á fyrsta hálftímanum átti Orri Gústafsson þegar að Hallgrímur átti góða fyrirgjöf sem endaði á kollinum á Carsten sem framlengdi boltanum á Orra sem náði fínum skalla að marki og þurfti markvörðu Tindastóls að hafa sig allann við til að verja boltann.
Eftir ríflega hálftíma leik geystust Stólarnir í skyndisókn sem lauk með því að Ivan Dragicevic braut á sóknarmanni Stólanna inn í vítateig og var réttilega dæmd vítaspyrna. Athygli vakti þó að dómari leiksins flautaði vítaspyrnu því að Tindastólsmenn skoruðu fullkomlega löglegt mark þrátt fyrir brotið en vítaspyrna varð niðurstaðan. Á punktinn steig Steven Beattie og skoraði hann af miklu öryggi og sendi Sandor í vitlaust horn. Einnig verður að setja spurningarmerki við atvik sem gerðist í aðdraganda mark sins þegar að leikmaður Tindastóls gaf Davíð Rúnari olnbogaskot og lá hann óvígur eftir en dómarinn sá ekkert athugavert við það.
Eftir markið réði KA liðið lögum og lofum á vellinum það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Aðeins fimm mínútum eftir mark Tindastóls átti KA aukaspyrnu rétt innan við miðjan vallarhelming heimamanna og hana tók Hallgrímur Mar og var spyrnan góð og varð leikmaður Tindastóls fyrir því óláni að skora sjálfsmark og leikar því orðnir jafnir. Strax í næstu sókn heimamanna virtust okkar menn en vera að fagna markinu því heimamenn fengu algjört dauðafæri nánast upp úr miðjunni. En þar voru að verki lang sprækustu leikmenn Tindastóls í leiknum þeir Elvar Páll fyrrum leikmaður KA og Steven Beattie. Þeir áttu góðan samleik sem endaði með því Elvar slapp einn gegn Sandor varði vel frá Elvari sem náði þó frákastinu sem Ivan Dragicevic bjargaði naumlega á marklínu.
Nokkrum mínútum síðar fengu okkar menn hornspyrnu sem Hallgrímur Mar tók. Var hún mjög góð og rataði beint á kollinn á Atla Svein sem stökk manna hæst og var aleinn í markteig Tindastóls og stangaði boltann í netið og kom KA yfir. Laglegt mark hjá fyrirliðanum sem er næst markahæsti leikmaður liðsins í sumar. Adam var hinsvegar ekki lengi í paradís. Því aðeins fjórum mínútum síðar áttu Tindastólsmenn aukaspyrnu út á miðjum velli sem datt inn í teig og þá átti sér stað afar umdeilt atvik sem gjörbreytti leiknum. Þá dæmdi slakur dómari leiksins Sigurður Óli Þórleifsson vítaspyrnu á Ivan Dragicevic og lét sér það ekki nægja heldur gaf hann Ivan sitt annað gula spjald en hafði fengið hið fyrra fyrir brott í fyrri vítaspyrnu heimamanna. Vítaspyrnan var síðan algjör endursýning af þeirri fyrri og skaut Steven Beattie í sama og horn og sendi Sandor í vitlaust horn. Virkilega erfitt að meta hvað átti sér stað inn í vítateignum en þetta virkaði afar strangur dómur og úr algjörum takt við leikinn að dómarinn lyfti upp gulu spjaldi og Ivan því úr leik og KA manni færri allann seinni hálfleikinn.
Þrátt fyrir að vera manni fleiri áttu heimamenn í miklu basli með að opna vörn KA og áttu í rauninni aðeins eitt hættulegt færi í seinni hálfleik og kom það á 89. mínútu leiksins þegar að Sandor varði vel frá Elvari Pál í upplögðu marktækifæri. Hættulegustu færi seinni hálfleiksins voru okkar manna og ber þar helst að nefna þegar að Bjarki náði að prjóna sig framhjá nokkrum varnarmönnum Tindastóls á laglegan hátt og stinga boltanum inn á Carsten sem skaut að marki en markvörður Tindastóls varði vel og varnmenn þeirra náðu að bægja hættunni frá. Miðað við þá línu sem var hjá dómurum leiksins í fyrri hálfleik hefði alveg verið hægt að flauta víti á heimamenn í seinni hálfleik. Fyrst þegar leikmaður Stólanna handlék knöttinn inn í vítateig og þegar að brotið var á Ómari en það brot var þó á mörkum þess að vera innann teigs. Lítið annað gerðist síðan í síðari hálfleik og svekkjandi jafntefli því niðurstaðan í leik sem umbreyttist vægast sagt við afdrifaríka ákvörðun dómara leiksins undir lok fyrri hálfleiksins. Leikmenn KA lögðu mikið á sig í seinni hálfleik og hlupu mikið og hefðu hæglega með smá heppni geta laumað inn marki og tekið öll stigin þrjú en sú varð því miður ekki raunin. Vert er síðan að minnast á allann þann fjölda stuðningsmanna KA sem gerði sér ferð á Sauðárkrók í kvöld og voru KA menn í meiri hluta á leiknum og var það afar ánægjulegt.
KA-maður leiksins: Hallgrímur Mar Steingrímsson ( Var líflegur allann tímann og ávallt hættulegur með boltann. Einnig lagði hann upp bæði mörk KA í leiknum)
Hér gefur svo að líta samantekt sem Tindastóll TV tók saman um leikinn. Smellið á linkinn hér að neðan.
http://www.youtube.com/watch?v=0m4UNwo0rn0
Næsti leikur liðsins er heimaleikur gegn Völsungi á fimmtudaginn næstkomandi og hefst hann kl. 19.15. Mætum á völlinn og styðjum strákana til sigurs í mikilvægum leik.