Jafntefli á Akranesi hjá Þór/KA

Kvennalið Þórs/KA sótti botnlið ÍA heim í gær í 11. umferð Pepsi deildar kvenna. Fyrir fram var reiknað með sigri okkar liðs en Þór/KA vann fyrri leik liðanna í sumar 4-0 og þá höfðu orðið breytingar á þjálfarateymi ÍA liðsins, annað kom þó á daginn.

ÍA 1 - 1 Þór/KA
0-1 Sandra Stephany Mayor Gutierrez ('25)
1-1 Megan Dunnigan ('59)

Leikurinn byrjaði frekar rólega en það var svo á 25. mínútu leiksins sem að Sandra Stephany skoraði fyrsta mark leiksins þegar hún kláraði vel eftir magnaðan skalla frá Söndru Maríu Jessen inn í teiginn. Staðan orðin 0-1 fyrir Þór/KA og eflaust flestir sem reiknuðu með þægilegum leik eftir markið.

Áfram var frekar rólegt yfir leiknum en Sandra María kom sér í gott færi undir lok fyrri hálfleiks en skot hennar var ekki nægilega gott og fór beint á Ástu Vigdísi í markinu.

Þór/KA ætlaði sér greinilega að klára leikinn og sótti stíft að Skagamarkinu í síðari hálfleiknum. Þegar um 10 mínútur voru búnar af hálfleiknum átti Andrea Mist tvö skot og Zaneta Wyne eitt í sömu sókninni en nauðvörn heimastúlkna hélt.

Stuttu síðar refsaði lið ÍA grimmilega þegar Megan Dunnigan fékk stungusendingu í gegnum vörnina og renndi hún boltanum í netið, staðan orðin 1-1.

Bæði lið leituðu að sigurmarkinu en það fannst ekki og jafntefli því niðurstaðan. Úrslitin mikil vonbrigði enda eru stelpurnar staðráðnar í að enda eins ofarlega í deildinni og hægt er. Skagaliðið á þó skilið mikið hrós en þær vörðust vel og voru hættulegar í skyndisóknum sínum.

Nú tekur við smá pása hjá Þór/KA en næsti leikur er 17. ágúst þegar Breiðablik kemur í heimsókn á Þórsvöll.

 FÉLAGLUJTMÖRKNETSTIG
1 Stjarnan 10 8 1 1 26  -    5 21 25
2 Breiðablik 11 7 4 0 19  -    4 15 25
3 Valur 10 6 3 1 21  -    8 13 21
4 Þór/KA 11 5 3 3 20  -  15 5 18
5 ÍBV 10 5 0 5 17  -  13 4 15
6 Fylkir 10 2 4 4 10  -  15 -5 10
7 FH 10 3 1 6   5  -  15 -10 10
8 Selfoss 11 3 1 7 14  -  25 -11 10
9 KR 10 1 3 6 10  -  24 -14 6
10 ÍA 11 1 2 8   5  -  23 -18 5