Hrannar Björn í KA (Staðfest)

Bjarni var ánægður með að fá Hrannar
Bjarni var ánægður með að fá Hrannar

Hrannar Björn Steingrímsson skrifaði í dag undir tveggja ára samning við KA. Hrannar kemur til okkar frá Völsung þar sem hann er uppalinn og hefur spilað allan sinn feril þar af síðustu tvö ár sem fyrirliði liðsins. 

Hrannar Björn er fæddur 1992 og er því 21 árs. Hann á að baki 106 leiki í deild og bikar fyrir Völsung og skoraði hann 29 mörk í þeim.
 
Hann hefur staðið sig mjög vel með Völsung þar sem hann hefur fengið fjöldan allan af einstaklingsverðlaunum fyrir góða frammistöðu á vellinum. Hann var valinn efnilegasti leikmaður Völsungs 2009 og 2010. Árið 2012 var hans besta ár þar sem hann leiddi liðið til sigurs í 2. deild þar sem hann var markahæsti leikmaður liðsins. Í kjölfarið var hann valinn efnilegasti leikmaður deildarinnar, í liði ársins í deildinni, knattspyrnumaður Húsavíkur og öðru sæti sem íþróttamaður Húsavíkur.
 
Hrannar hefur mest leikið sem sóknarsinnaður miðjumaður en getur einnig verið aftar á miðjunni eða á köntunum.
 
Bjarni Jó þjálfari var mjög ánægður með vistaskipti Hrannars. ,,Hrannar hefur sýnt það í leik með Völsungi undanfarin ár að hann hefur staðið sit vel. Hann er góður miðjumaður sem getur reyndar leyst margar stöður sem er kostur. Það er gott að vera búinn að fá hann og það verður spennandi að sjá þá bræður takast á við þetta verkefni með okkur næsta ár," sagði Bjarni.
 
Þrír eldri bræður Hrannars þeir Guðmundur Óli, Sveinbjörn Már og Hallgrímur Mar hafa allir leikið með KA og hefur Hrannar heyrt mjög vel látið af KA. Hér að neðan er myndband þar sem Hrannar er tekinn í stutt viðtal.
 
Við bjóðum þennan hæfileikaríka leikmann velkominn í KA!