Fotbolti.net velur ávallt besta leikmann í hverri umferð í Inkasso deildinni og að þessu sinni er það Hallgrímur Mar Steingrímsson leikmaður KA sem varð fyrir valinu. Hallgrímur sýndi mjög góðan leik í 1-0 sigri KA á nágrönnum okkar í Þór og var hann gripinn í viðtal hjá Fotbolti.net sem við birtum hér.
Að auki er Hallgrímur í liði umferðarinnar ásamt þeim Archie Nkumu og Tufa sem er þjálfari umferðarinnar.
Hallgrímur Mar Steingrímsson, leikmaður KA, er leikmaður umferðarinnar í Inkasso-deildinni. Hann lagði upp eina mark leiksins þegar KA vann erkifjendur sína í Þór fyrir framan 1.620 áhorfendur á Akureyrarvelli.
Það er alltaf gaman að spila við Þór, sérstaklega í íslandsmóti og þegar það eru svona margir áhorfendur. Það er held ég fátt sem toppar það," segir Hallgrímur en talað hefur verið um að sigurmark leiksins hafi verið hreinræktað frá Húsavík.
Ég tek hornspyrnu minnir mig og þeir hreinsa burt og Almarr fær held ég boltan sendir hann til baka á Hrannar, sem er svo lítill að hann fær aldrei að koma nálægt boxinu í hornum og hann setur hann strax út á mig hægra megin og ég kem með fyrirgjöf á kollinn á Elfari sem skallar hann í netmöskvana," segir Hallgrímur léttur.
Það er virkilega sætt að hafa unnið þennan leik, það er mikið undir og mikil pressa á að vinna þessa leiki hjá báðum liðum. Það er mjög erfitt að kyngja því þegar maður tapar þessum leikjum."
KA er með fimm stiga forystu á toppi deildarinnar þegar keppni er hálfnuð. Hvernig lýst Hallgrími á baráttuna fyrir seinni helming tímabilsins?
Mér lýst bara mjög vel á hana, þetta verður barátta alveg fram í síðustu umferð held ég. Fimm stiga forysta er ekki neitt í þessu, hlutirnir geta breyst fljótt. Grindavík, Leiknir, Keflavík og Þór eru öll með góð lið, svo það þýðir ekkert að gefa neitt eftir í þessu. Við eigum mikið inni spilalega séð og náum vonandi að stíga meira upp í seinni umferðinni og klára mótið á toppnum."
Hallgrímur hefur verið að spila í nýrri stöðu á þessu tímabili og verið í öðru hlutverki en hann er vanur.
Ég hef aldrei spilað neitt annað en vinstra megin í gegnum minn feril og er núna komin í þessa svokallaða holu. En ég er búinn að vera ánægður með mig fyrir utan fyrstu 3-4 leikina. En ég á enn mikið inni samt. Verst bara hvað maður þarft stundum að hlaupa mikið í þessu nýja hlutverki," segir Hallgrímur kíminn.