Á morgun fara okkar menn í Hafnarfjörðinn þar sem Haukar taka á móti okkur á Schenkervellinum í 6. umferð. Haukar hafa farið vel af stað í mótinu í sumar og sitja í 5. sæti en eru aðeins tveimur stigum frá efsta sætinu og því um hörku leik að ræða. Leikurinn hefst kl. 19.15.
Haukum stýrir fyrrum landsliðsþjálfarinn Ólafur Jóhannesson og honum til aðstoðar er reynsluboltinn Sigurbjörn Hreiðarsson. Haukum var líkt og KA spáð góðu gengi af fyrirliðum og þjálfurum í deildinni fyrir mót og hefur spilamennska þeirra verið á pari við það. Eru búnir að vinna nokkra sterka sigra gegn Fjölni, Selfoss og Þrótti R. En tapað gegn Grindavík og gert jafntefli við KF í síðustu umferð.
Á síðasta tímabili voru Haukar lengi í baráttu um að komast upp en gáfu eilítið eftir á lokasprettinum og enduðu að lokum í fimmta sæti. Haukar styrktu sig einna mest liðanna í deildinni fyrir tímabilið. Ber þar helst að nefna Hafstein Briem frá Val, Hafþór Þrastarson (Fyrrum leikmann KA) frá FH, Andra Stein Birgisson frá Víking R. og Sigmar Inga Sigurðarson frá Breiðablik. Einnig fengu þeir fjóra mjög sterka fyrrum leikmenn aftur til liðs við sig. En það voru þeir Ásgeir Þór Ingólfsson, Hilmar Geir Eiðsson, Hilmar Rafn Emilsson og Úlfar Hrafn Pálsson en þeir hafa skorað meira en helming marka liðsins í sumar og reynst liðinu vel. Þess má einnig til gamans geta að Haukar eru eina lið deildarinnar sem spilar alla heimaleiki sína á gervigrasi.
Að öðru en heimasíðan hefur ákveðið að koma með nýjan lið sem verður fyrir hvern einasta leik KA í sumar og verður partur af upphitun fyrir hvern leik. Þar sem hinir ýmsu KA menn og konur á öllum aldri og úr öllum áttum munu láta reyna á spádóms hæfileika sína og rýna í komandi leik hjá KA í léttum dúr og er þetta aðalega til gamans gert og ælta þrír vaskir spámenn að ríða á vaðið núna og aldrei að vita nema einhver þeirra hafi rétt fyrir sér.
Spámenn umferðarinnar:
Steingrímur Örn Eiðsson, KA maður: Heyrðu þetta leggst svona ágætlega í mig með þennan leik sko.... held að Bjarni sé búinn að tala vel yfir hausamótunum á okkar mönnum og þeir rífi upp um sig buxurnar og fari að spila eins og ég veit að þeir geta, því það býr alveg hellings fótbolti í þessum strákum.
Held að við tökum þetta 2-1 og munu þeir Grímsi og Atli setja mörkin. Atli kemur okkur yfir um miðjan fyrri hálfleik og finnst eins og að Haukar munu jafna fyrir hlé eða fljótlega eftir hlé og Grímsi setur sigurmarkið á 70-80 mín. Það munu því glaðir KA strákar keyra heim til Akureyrar með 3.stig úr Hafnarfirðinum á föstudagskvöldið.
Jón Þór Kristjánsson, KA maður: Leikurinn gegn Haukum á föstudag leggst feykilega vel í mig.
Ég held að leikurinn verði ákveðinn vendipunktur í spilamennsku KA liðsins þetta sumarið. Byrjunin á langri sigurgöngu jafnvel.
Ég held að þetta verði skemmtilegur leikur af okkar hálfu og KA menn muni bjóða upp á mikinn sóknarbolta. Ég spái því að við munum stjórna leiknum frá A-Ö og gefa fá færi á okkur.
Ég spái því að leikurinn fari 0-2 fyrir KA. Hallgrímur skorar í fyrri hálfleik eftir frábært spil og Davíð Rúnar bætir við marki undir lok leiksins. Enginn rennur á rassinn í vörninni og markinu verður haldið hreinu.
Regína Margrét Siguróladóttir, KA kona: Þeir vinna 1 - 2 Hallgrímur Mar skorar bæði og Sandor mun standa sig vel í markinu. Vonandi fer þetta allt að koma. Þeir verða að vinna næstu tvo leiki og þegar það gerist þá verðum við í góðum málum.
Við hvetjum alla sem hafa tök á og eru staddir á höfuðborgarsvæðinu að mæta á leikinn og styðja okkar menn til sigurs. En einnig er vert að benda á að fagmennirnir á SportTV munu vera með leikinn í beinni útsendingu og er hægt að sjá hann á heimasíðu þeirra www.sporttv.is
Áfram KA !
Aðalsteinn Halldórsson