Gekk ekki hjá U19

Íslensku stelpurnar í U19 enduðu í 3. sæti í Sviss eftir ágæta frammistöðu sem dugði ekki í þetta skipti þar sem tvö efstu lið riðilsins komust áfram í milliriðil EM 2016.

Stelpurnar sigruðu Georgíu í fyrsta leik þar sem Lillý Rut sem er fyrirliði liðsins var í byrjunarliðinu en var skipt útaf á 55. mínútu fyrir Önnu Rakel sem gerði sér lítið fyrir og lagði upp tvö mörk.

Annar leikurinn var vonbrigði en þegar upp var staðið var það úrslitaleikur um hvort Ísland eða Grikkland kæmust áfram. Þar biðu stelpurnar lægri hlut 2-1 og var því langsótt að þær kæmust áfram þar sem lið Sviss er mjög sterkt. Anna Rakel og Lillý Rut spiluðu allan leikinn og Andrea Mist kom inná þegar um korter var eftir af leiknum.

Síðasti leikurinn tapaðist 2-0 gegn Sviss sem hafði áður unnið Grikki 7-0 og Georgíu 23-0. Þar spilaði Lillý Rut allan leikinn, Andrea Mist kom inná í lokin en Anna Rakel var ónotaður varamaður.

Svekkjandi niðurstaða en frábær reynsla fyrir Önnu Rakel og Andreu Mist sem eiga ár eftir í þessum aldursflokki. Einnig frábært að Þór/KA eigi fyrirliða U19 ára lið Íslands.