Gauti Gautason æfir hjá Brighton & Hove Albion

Gauti Gautason gerði í haust samning við knattspyrnudeild KA. Þessi mynd var tekin við það tækifæri.
Gauti Gautason gerði í haust samning við knattspyrnudeild KA. Þessi mynd var tekin við það tækifæri.
Gauta Gautasyni, varnarmanninum knáa í KA, hefur verið boðið til æfinga hjá Brighton & Hove Albion í næstu viku. Hann fer út nk. sunnudag og æfir í eina viku hjá Brighton.

Gauti Gautason er fæddur 1996 og er því á yngsta ári í 2. flokki. Hann hefur átt mjög gott ár í fótboltanum á þessu ári. Hann var valinn í U-17 landsliðið sem spilaði á Norðurlandamótinu í Færeyjum og í framhaldinu af því hélt hann sæti sínu í landsliðinu sem spilaði í forkeppni Evrópumótsins. Þar stóð hann vaktina sem miðvörður í byrjunarliðinu.  Þá spilaði hann feykilega vel með bæði 3. flokki og 2. flokki KA á liðnu sumri.

Gauti var valinn í æfingahóp U-19 landsliðsins sem æfir einmitt núna um helgina og að þeim æfingum loknum flýgur Gauti til Englands og dvelur þar í viku, sem fyrr segir. Gauta fylgja góðar óskir um gott gengi ytra.

Brighton & Hove Albion er rótgróinn klúbbur á Englandi - stofnaður 1901. Liðið er í 1. deildinni - næstefstu deild - og er þar sem stendur í efri hlutanum.