Íslandsmeistarar Þórs/KA hófu sumarið af gríðarlegum krafti þegar liðið vann 0-5 útisigur á Grindavík í fyrsta leik sumarsins. Á morgun, miðvikudag, er svo komið að fyrsta heimaleiknum þegar sameinað lið HK og Víkings mætir norður en leikurinn fer fram í Boganum og hefst kl. 18:00.
HK/Víkingur kom mörgum á óvart þegar liðið vann 2-1 sigur á FH í fyrstu umferðinni en FH var spáð góðu gengi í sumar. Maggý Lárentsínusdóttir og Stefanía Ásta Tryggvadóttir komu HK/Víking í 2-0 áður en gestirnir úr Hafnarfirðinum löguðu stöðuna, það var hinsvegar ekki nóg.
Stelpurnar eru klárlega sigurstranglegri aðilinn fyrir leikinn en þessi sigur HK/Víkings í fyrstu umferðinni sýnir að þær eru mættar óhræddar til leiks í deild þeirra bestu og ljóst að okkar lið þarf að mæta klárt til leiks.
Við hvetjum að sjálfsögðu alla sem geta til að mæta í Bogann og styðja stelpurnar til sigurs, þær eru staðráðnar í að verða Íslandsmeistarar annað árið í röð og til að það rætist þarf heimavöllurinn að halda, sjáumst á morgun og áfram Þór/KA!