Fyrsta tap Þór/KA í sumar staðreynd

Kayla Grimsley í baráttunni (mynd: Eggert/mbl)
Kayla Grimsley í baráttunni (mynd: Eggert/mbl)

Kvennalið Þórs/KA í knattspyrnu mætti í Garðabæinn í dag og mætti firnasterku liði Stjörnunnar. Á endanum sigruðu heimastúlkur sannfærandi og sanngjarnan 5-1 sigur og fyrsta tap Þórs/KA í sumar því staðreynd.

Stjarnan 5-1 Þór/KA
1-0 Írunn Þorbjörg Aradóttir ('14)
2-0 Anna Björk Kristjánsdóttir ('19)
2-1 Sarah Miller ('21)
3-1 Sjálfsmark Þór/KA ('67)
4-1 Harpa Þorsteinsdóttir ('76)
5-1 Írunn Þorbjörg Aradóttir ('82)

Það var mikið líf í leiknum og þá sérstaklega í upphafi leiks, bæði lið sóttu og fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós á 14. mínútu þegar Írunn Þorbjörg Aradóttir skoraði fyrir heimastúlkur eftir að hafa lagt boltann vel í netið. Fimm mínútum síðar tvöfaldaði Stjarnan svo forskotið með skallamarki Önnu Bjarkar Björnsdóttur eftir hornspyrnu og róðurinn orðinn þungur fyrir okkar lið.

Sarah Miller svaraði hinsvegar strax með flottu marki þegar hún skallaði boltann inn eftir sendingu frá Kaylu Grimsley en Sarah skallaði boltann lystilega í boga í netið. Áfram var mikið fjör í leiknum en þrátt fyrir það urðu mörkin ekki fleiri í hálfleiknum og staðan því 2-1 þegar flautað var til hlés.

Síðari hálfleikurinn var síðan í raun eign heimastúlkna þrátt fyrir að hann væri ekki jafn opinn og sá fyrri. Ágústa Kristinsdóttir varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 67. mínútu sem gerði verkefni enn erfiðara en Ágústa var að reyna að koma boltanum í burtu sem tókst ekki betur en svo að boltinn endaði í netinu.

Garðbæingar héldu svo áfram að sækja til loka leiks og uppskáru tvö önnur mörk, Harpa Þorsteinsdóttir skoraði á 75. mínútu áður en að Írunn skoraði lokamark leiksins á 82. mínútu og lokatölur því 5-1 fyrir heimaliðinu.

Vissulega mikil vonbrigði að tapa leiknum og það þetta illa en það var vitað fyrir leik að Stjarnan er með hörkulið. Nú þurfa stelpurnar bara að rífa sig upp og vera klárar í næsta leik, tap í dag og svekkjandi jafntefli í leiknum á undan þýðir það að liðið er komið í 4. sæti Pepsi deildarinnar og getur fallið neðar þegar 6. umferðin klárast.