Fylkir og KA mætast í Egilshöllinni

Hreinn Hrings skoraði oft gegn Fylki á árum áður
Hreinn Hrings skoraði oft gegn Fylki á árum áður

KA liðið leikur sinn annan leik í Pepsi deildinni á morgun, sunnudag, þegar liðið sækir Fylkismenn heim í Egilshöllina klukkan 17:00. KA liðið gerði 2-2 jafntefli einmitt í Egilshöll í fyrstu umferð gegn Fjölnismönnum en Fylkismenn töpuðu á sama tíma 1-0 gegn Víkingum.

KA liðið ætlar sér stóra hluti í sumar og er leikurinn á morgun mikilvægur fyrir framhaldið. KA er komið áfram í 16-liða úrslit Mjólkurbikarsins eftir sigur á Haukum í vikunni og ætla menn að byggja á frammistöðu síðustu tveggja leikja.

Það er orðið langt síðan þessi tvö lið mættust í deild eða bikar en síðasta viðureign liðanna var sumarið 2004 á Fylkisvelli í Landsbankadeildinni og fór KA þá með 0-1 sigur af hólmi og skoraði Elmar Dan Sigþórsson eina mark leiksins.

Liðin mættust í eftirminnilegum Bikarúrslitaleik sumarið 2001 þar sem Fylkismenn höfðu betur í vítaspyrnukeppni eftir að staðan hafði verið jöfn 2-2. Hreinn Hringsson skoraði bæði mörk KA í leiknum og má sjá helstu atvik úr leiknum hér fyrir neðan.

Aftur mættust liðin í Bikarnum árið eftir en nú í undanúrslitum Bikarsins. Fylkismenn komust yfir snemma leiks og fengu svo ódýra vítaspyrnu, í kjölfarið breyttu þeir stöðunni í 3-0 sem voru hálfleikstölur. En KA liðið kom til baka og minnkaði muninn í 3-2 með mörkum frá Hreini Hringssyni og Þorvaldi Makan Sigbjörnssyni en það dugði ekki til og Fylkismenn vörðu svo Bikartitil sinn.

Stuðningsmenn KA fyrir sunnan ætla að hittast fyrir leik á O'Learys í Smáralind uppúr klukkan 13:00 og verða sértilboð fyrir stuðningsmenn KA. Þeir sem koma að norðan ætla hinsvegar að hittast á Shake & Pizza í Egilshöllinni.

Við bendum á að leikurinn er ekki sýndur á Stöð 2 Sport þannig að ef þú kemst á leikinn þá er um að gera að drífa sig í Egilshöllina og taka þátt í KA gleðinni á pöllunum!