Aron Dagur átti frábært mót í milliriðli EM U17 ára landsliða. Hann hélt hreinu gegn Austurríki og Grikklandi og fékk einungis á sig eitt mark gegn Frakklandi. Gegn Frakklandi þótti hann vera bestur af okkar drengjum og var valinn maður leiksins.
Á móti kom að íslensku strákarnir voru ekki mikið á skotskónum en þeir skoruðu aðeins eitt mark sem kom gegn Grikklandi.
Lokastaðan í riðlinum var því Frakkland með 6 stig, Austurríki með 5 stig, Ísland með 4 stig og Grikkland með 1 stig. Frakkland og Austurríki fara í lokakeppni EM sem fram fer í sumar en íslensku strákarnir sitja eftir með sárt ennið eftir flott mót.
Aron Dagur er nú með meistaraflokk KA í æfingaferð úti á Spáni.