KA tók á móti Víking í 7. umferð Pepsi deildar karla í dag á Akureyrarvelli. Mikil gleði var í kringum leikinn en KA menn tóku daginn snemma á KA-svæðinu þar sem allar greinar innan KA voru í boði, grillaðar voru pylsur, andlitsmálning og allskonar fleira skemmtilegt. Því næst arkaði hópurinn niður á Akureyrarvöll og það í þessari frábæru blíðu. Mætingin á leikinn var líka til fyrirmyndar en tæplega 1.000 manns mættu á völlinn.
KA 4 - 1 Víkingur R.
1-0 Archie Nkumu ('32)
2-0 Ásgeir Sigurgeirsson ('37)
3-0 Hallgrímur Jónasson ('54)
3-1 Alex Freyr Hilmarsson ('67)
4-1 Hallgrímur Mar Steingrímsson ('78)
Það virðist sem gleðin fyrir leikinn hafi gefið okkar leikmönnum aukinn kraft því spilamennska liðsins var flott og strákarnir stjórnuðu leiknum frá upphafi.
Vandamál liðsins í undanförnum leikjum hefur verið að skapa sér færi og því var ansi þungu fargi létt af bæði leikmönnum sem og stuðningsmönnum þegar enginn annar en Archie Nkumu skoraði fyrsta mark leiksins á 32. mínútu. Hallgrímur Mar átti flotta fyrirgjöf og þar var Archie einn og óvaldaður og skallaði boltann af öryggi í netið.
Markið gaf liðinu klárlega enn meiri kraft og var í raun bara spurning hvenær næsta mark liti dagsins ljós. Biðin var ekki löng því Ásgeir Sigurgeirsson skoraði af mikilli hörku eftir klafs í teignum. Staðan orðin 2-0 og Víkingar sáu vart til sólar þrátt fyrir gríðarlegt sólskin á Akureyrarvelli.
Síðari hálfleikur hófst alveg eins og sá fyrri, KA miklu meira með boltann og hættan lítil sem engin hjá gestunum. Á 54. mínútu kom svo þriðja markið þegar Hallgrímur Jónasson skallaði fyrirgjöf Hallgríms Mar laglega í netið og var yndislegt að fylgjast með gleðinni á vellinum. Biðin eftir þessum sigri var greinilega búin að leggjast á ýmsa og sigur KA að því er virtist í höfn.
En gestirnir komu með áhlaup og náðu að setja nokkra pressu á KA liðið í kjölfar þriðja marksins. Þeir minnkuðu muninn á 68. mínútu eftir langt innkast og fékk Alex Freyr Hilmarsson þetta úrvalsfæri sem hann gat ekki annað en nýtt. Í kjölfarið fóru KA menn að reyna að verja forskotið og fór aðeins um mann í stúkunni.
Hallgrímur Mar sem hafði átt mjög góðan leik sló hinsvegar á allan vafa um hvar sigurinn myndi enda þegar hann skoraði eftir frábæra sendingu frá Elfari Árna Aðalsteinssyni. Hallgrímur var skyndilega kominn einn í gegn og kláraði af miklu öryggi.
Leikurinn datt niður í kjölfarið og var eins og menn væru að bíða eftir lokaflautinu. 4-1 stórsigur KA staðreynd og ljóst að þessi leikur mun gefa okkar liði mjög gott veganesti í næstu leiki. Mjög gaman var að sjá til strákanna í dag og var baráttan til fyrirmyndar. Mig langar sérstaklega að nefna Archie Nkumu sem var algjörlega til fyrirmyndar á miðjunni í dag, en þó var einn sem var honum fremri í dag.
Nivea KA-maður leiksins: Hallgrímur Mar Steingrímsson (Hallgrímur lagði upp tvö mörk, skoraði eitt og átti stóran þátt í hinu markinu. Svona vill maður sjá frá Hallgrími og frábært ef hann er kominn í gang í sumar.)
Næsti leikur er útileikur gegn Íslandsmeisturum Vals á laugardaginn. Nú er bara vona að strákarnir komi af sama krafti inn í þann leik og berjist um stigin þrjú, já nú er gaman!