KA gerði góða ferð á Selfoss á föstudagskvöld og lagði heimamenn með fjórum mörkum gegn engu. Góður fyrri hálfleikur lagði grunninn að sigrinum.
Selfoss 0 4 KA
0 1 Sjálfsmark (8) Stoðsending: Ben
0 2 Jóhann Helgason (26)
0 3 Ben Everson (33) Stoðsending: Davíð Rúnar
0 4 Juraj Grizelj (87) Stoðsending: Ævar Ingi
Lið KA:
Rajko, Hrannar Björn, Davíð Rúnar, Callum, Hilmar Trausti, Archie, Jóhann, Halldór Hermann, Josip, Ævar Ingi og Ben.
Bekkur: Aron Ingi, Juraj, Úlfar Vals, Ólafur Aron, Ívar Örn, Ívar Sigurbjörns og Bjarki Viðars.
Skiptingar:
Hrannar út Bjarki inn (54)
Jóhann út Ólafur Aron inn (67)
Josip út Juraj inn (78)
Eins og svo oft áður hjá KA í sumar var leikurinn ekki mjög gamall þegar að KA liðið skoraði. Eftir 8. mínútna leik varð Einar Ottó Antonsson fyrir því óláni að skora sjálfsmark eftir hornspyrnu KA. Boltinn barst til Ben sem skallaði fyrir markið og boltinn hrökk svo af Einari Ottó og yfir línuna.
Yfirburðir KA í leiknum voru miklir og á 27. mínútu var brotið á Jóhanni Helgasyni fyrir utan vítaeig Selfyssinga. Jóhann tók spyrnuna sjálfur og var spyrnan af dýrari gerðinni upp í bláhornið vinstra megin, óverjandi fyrir markvörð Selfyssinga og forysta KA orðinn 0 2. Mögnuð aukaspyrna frá Jóa sem virtist alveg gjörsamlega slökkva í heimamönnum.
Skömmu síðar átti Davíð Rúnar langa sendingu úr vörninni fram á Ben Everson sem hafði betur í baráttunni við varnarmenn Selfoss og slapp einn í gegn og lyfti boltanum síðan snyrtilega yfir markvörð Selfyssinga. Staðan því 0-3 í hálfleik. Frábær fyrri hálfleikur hjá liðinu og ótrúlega mikill kraftur í því.
Seinni hálfleikur var ekki alveg jafn fjörugur og sá fyrri og færði KA liðið sig töluvert aftar og pressuðu ekki jafn ákaft og í þeim fyrri. Heimamenn voru hinsvegar ekki að skapa sér nein hættuleg marktækifæri að undanskildu því þegar að Rajko bjargaði meistaralega þegar að Elton Barros slapp einn í gegn en Rajko hirti af honum boltann.
Í lokin innsiglaði KA síðan sigurinn þegar að Archie átti lagalegan sprett, einn af mörgum og gaf boltann á Ævar sem sendi inn fyrir vörn Selfyssinga á Juraj sem skoraði úr þröngu færi með góðri afgreiðslu. 0-4 sigur í fyrsta leik Túfa sem aðalþjálfari KA því staðreynd.
KA-maður leiksins: Ben Everson (Ákaflega ferskur upp á topp í þessum leik. Mark og stoðsending og hélt bolta vel upp á topp. Hans besti leikur með KA.) Archange Nkumu var síðan kóngur í ríki sínu á miðjunni og átti framúrskarandi leik. Varnarlína KA og Rakjo áttu síðan mjög góðan dag og voru öruggir allann tímann.
Næsti leikur KA er skammt undan en hann er þriðjudaginn 18. ágúst gegn Þrótturum hér á Akureyri kl. 18.15. Það þarf vart að fjölyrða um mikilvægi þessa leiks og er feikilega mikilvægt að allir KA menn mæti á völlinn og styðji liðið til sigurs. Áfram KA!