36. N1 mót okkar KA manna var haldið á KA-svæðinu dagana 29. júní - 2. júlí og heppnaðist það ákaflega vel. Alls var keppt í 13 mismunandi deildum á mótinu þar sem 200 lið léku listir sínar. Keppendur voru rúmlega 2.000 en alls voru leiknir 900 leikir á mótinu og heldur betur mikið fjör á Akureyri á meðan mótinu stóð.
Gríðarlegur fjöldi sjálfboðaliða komu að mótinu í ár rétt eins og undanfarin ár og í raun alveg ótrúlegt að upplifa kraftinn í kringum félagið okkar sem gerir okkur kleift að halda eins stórt mót og N1 mótið er ár hvert. Við kunnum öllum þeim sem lögðu hönd á plóg bestu þakkir fyrir þeirra ómetanlega framlag til félagsins.
Rétt eins og undanfarin ár sýndi KA-TV vel frá mótinu, allir leikir á velli 8 voru sýndir og þeim lýst af kostgæfni en umsjónarmenn KA-TV á mótinu voru þeir Andri Freyr Björgvinsson, Bjarni Snær Friðriksson, Björgvin Máni Friðriksson og Sindri Már Stefánsson. Þá gerði Tjörvi Jónsson glæsilegt mótsmyndband sem fangar vel stemninguna sem ríkti á mótinu.
KA sendi alls 13 lið til leiks á mótinu í ár og hétu liðin eftir leikmönnum í meistaraflokksliði félagsins. Þessi nýbreytni heppnaðist ákaflega vel en leikmennirnir fylgdu liðunum sínum eftir á mótinu og ekki nokkur vafi að þetta mun tengja hetjurnar okkar í meistaraflokki enn betur við yngriflokkastarfið.
KA Danni Hafsteins stóð uppi sem sigurvegari í Brasilísku deildinni og má sjá mynd af liðinu efst í fréttinni.
KA Ívar Örn lék í Argentísku deildinni og eftir frábæra spilamennsku endaði liðið í 3. sæti mótsins sem er frábær árangur.
KA Rodri vann sigur í Japönsku deildinni
KA Dusan vann sigur í Kólumbísku deildinni
KA Nökkvi vann sigur í Mexíkósku deildinni
KA Ásgeir varð í 2. sæti í Grísku deildinni
Hér má sjá yfirlit yfir sigurvegara í öllum keppnum á mótinu
Argentíska deildin: Breiðablik Höskuldur
Brasilíska deildin: KA Danni Hafsteins
Chile deildin: Afturelding 2
Danska deildin: Fram 2
Enska deildin: Þróttur 3
Franska deildin: Breiðablik Damir
Gríska deildin: KFR 1
Hollenska deildin: Valur 5
Íslenska deildin: Stjarnan 7
Japanska deildin: KA Rodri
Kólumbíska deildin: KA Dusan
Mexíkóska deildin: KA Nökkvi
Norska deildin: HK Ívar Örn og FH 11
Háttvísi og prúðmennskuverðlaun Sjóvá: Álftanes
Sveinsbikarinn: Fjarðabyggð (háttvísi innan sem utan vallar)