Fjölnir og KA gerðu 2-2 jafntefli í Egilshöllinni í dag í fyrstu umferð Pepsi deildar karla. Fyrri hálfleikur var gríðarlega fjörugur og komu öll mörkin einmitt í fyrri hálfleik, sá síðari var hinsvegar mun rólegri og var lítið um færi. Leikmenn og þjálfarar beggja liða voru teknir í viðtöl af hinum ýmsu miðlum og birtum við þau hér fyrir neðan.
Víðir Sigurðsson hjá Morgunblaðinu heyrði í Hallgrími Jónassyni hjá KA og Ægi Jarli Jónassyni hjá Fjölni.
Hallgrímur Jónasson, varnarmaðurinn reyndi í liði KA, spilaði sinn fyrsta deildaleik á Íslandi í tæp tíu ár í dag þegar Akureyrarliðið gerði jafntefli, 2:2,við Fjölni í fyrstu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í Egilshöllinni.
Hallgrímur sagði við mbl.is eftir leikinn að hann væri nokkuð sáttur við niðurstöðuna en KA lenti tvisvar undir á fyrstu 17 mínútum leiksins.
Við erum búnir að vera mjög flottir í vetur en höfum verið að ströggla aðeins undanfarið. Það voru einir fimm búnir að glíma við meiðsli síðustu vikuna fyrir mót, þar á meðal ég, og í dag voru tveir til þrír inni á vellinum sem ekki eru alveg heilir.
En við komumst í gegnum leikinn, lentum tvisvar undir og fengum mjög erfiða byrjun, lentum strax marki undir. Það var kjaftshögg að fá það mark á sig og það tók nokkurn tíma að komast inn í leikinn.
Það var mjög jákvætt að koma til baka tvisvar að jafna metin og síðan fengum við tvo til þrjá sénsa til að skora þriðja markið og vinna leikinn. Það hefði kannski ekki verið sanngjarnt en við erum sæmilega sáttir við stigið, þó ég sé ekki alveg sáttur við spilamennskuna.
Öll fjögur mörkin komu í fyrri hálfleik og Hallgrímur tók undir að það hefði verið skemmtilegur fótbolti á boðstólum, bæði í Egilshöllinni í dag og í fleiri leikjum í fyrstu umferð deildarinnar.
Já, ég er ánægður með að sjá hve mörg lið vilja spila fótbolta. Við sáum Val og KR í gær og það vita allir hvernig fleiri lið spila, eins og Stjarnan, Fjölnir og Grindavík. Þetta er skemmtilegt, kannski voru of margar langar sendingar í byrjun leiks í dag en það er alltaf vorbragur í fyrsta leik þegar menn vilja ekki taka séns. Fjölnisliðið er bara skemmtilegt og við verðum að vera sáttir með stig eftir að hafa lent undir tvisvar.
Leikurinn fór fram í Egilshöllinni þar sem grasvöllur Fjölnis er ekki tilbúinn og Hallgrímur kvaðst ekki sérstaklega ánægður með það.
Nei, það var ekkert voðalega gaman og ég hefði verið til í að byrja á góðum grasvelli. En þetta er besti kosturinn í dag fyrst grasvellirnir eru ekki betri. Það hefði reyndar mátt bleyta völlinn í dag, hann var skraufaþurr og það voru allir að fá krampa þegar leið á leikinn. En við búum á Íslandi og það þýðir ekkert að kvarta yfir því sem við getum ekki breytt.
Við erum ekki vanir að gefa svona mörg færi á okkur eins og við gerðum í dag. Við höfum verið mjög stabílir, búnir að spila hátt í 30 leiki síðan í september og tapað einum. Ég er viss um að við munum vaxa inn í mótið, vonandi náum við að tjasla öllum saman og þá held ég að við verðum mjög flottir í sumar. Það er gott jafnvægi í liðinu, góðir varnarmenn og svo menn sem geta sprengt upp leikinn. Þetta er svolítið flott blanda."
Hallgrímur hefur leikið í Danmörku og Svíþjóð frá árinu 2009 en hann kom heim í vetur og gerði langan samning við KA. Hann sagði að vissulega væri munur á fótboltanum á Íslandi og í úrvalsdeildunum á hinum Norðurlöndunum.
Já, það er aðeins öðruvísi að koma heim og spila en ég var síðast í þessari deild fyrir tíu árum og vissi hvernig þetta væri. Fyrir mér voru það engin rosaleg viðbrigði þó þetta sé aðeins öðruvísi. Þar sem ég spilaði var boltanum meira spilað með jörðinni og tekin meiri áhætta en þetta er bara mjög gaman.
Mörg lið, jafnvel lítil lið, innan gæsalappa, spila góðan fótbolta, mun fleiri en þegar ég lék hérna síðast. Það er jákvætt og ég held að deildin verði aðeins jafnari en menn halda. Við sáum það í gær þegar KR var rétt búið að gera jafntefli við Val, Keflavík jafnaði gegn Stjörnunni í Garðabænum og við á útivelli í dag. Þetta verður bara jafnt og skemmtilegt, held ég," sagði Hallgrímur Jónasson.
Ægir Jarl Jónasson sóknarmaður úr Fjölni var fljótastur allra að skora mark í fyrstu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í ár en hann skoraði eftir aðeins 70 sekúndur þegar Fjölnir og KA skildu jöfn, 2:2, í líflegum leik í Egilshöllinni í dag.
Ægir gerði markið með skalla eftir fyrirgjöf Arnórs Breka Ásþórssonar, vinstri miðjumanns Fjölnis, sem kom til liðsins frá Aftureldingu í vetur, og var því aðeins 70 sekúndur að ná sinni fyrstu stoðsendingu í efstu deild.
Það var fáránlega góð tilfinning að skora þetta mark, fyrir framan stappaða stúku. Það var frábær stemning hérna í dag og verst að ná ekki í þrjú stigin. Arnór kom með boltann á stöngina fjær og ég náði að stanga hann niður í jörðina og inn. Við höfum verið að gera þetta mikið á æfingum og í leikjum í vetur. Hann er með góðar fyrirgjafir og ég er alltaf klár á fjærstönginni.
Fyrri hálfleikurinn í dag var geysilega fjörugur og staðan eftir 37 mínútur var orðin 2:2. Ægir tók undir að þetta hefði verið skemmtilegt.
Já, klárlega. Það komu fjögur mörk, gríðarlegur hraði, mikið tempó og mikill barningur, en svo datt hraðinn dálítið niður í seinni hálfleiknum. Ég held að menn hafi sprengt sig dálítið í þeim fyrri. Menn voru orðnir dálítið útkeyrðir og það sást á báðum liðum."
Fjölnir var með níu uppalda leikmenn í byrjunarliðinu og engan erlendan leikmann og Ægir samþykkti að það væri virkilega gaman að vera Fjölnismaður í dag.
Jú, það er mikil stemning hjá okkur og mér finnst Fjölnisstemningin vera komin aftur þegar þetta eru nánast bara Fjölnisstrákar og svo Almarr og aðrir sem hafa bæst við og hjálpa okkur mikið.
Við ætlum bara að taka einn leik í einu, stefnum auðvitað að því að vinna alla leiki, en hugsa bara um hvern fyrir sig. Ef við verðum eins og í dag, þá hef ég ekki miklar áhyggjur en við verðum auðvitað að ná í úrslit í öllum leikjum. Ég sé ekkert ákveðið sæti fyrir mér en við ætlum bara að gera vel og spila góðan fótbolta," sagði Ægir Jarl Jónasson sem er tvítugur og skoraði sitt fyrsta mark í 38 leikjum í efstu deild.
Ívar Kristinn Jasonarson á Vísi ræddi málin við Túfa og Hallgrím Jónasson hjá KA og hjá Fjölni ræddi hann við Ólaf Pál þjálfara og Almarr Ormarsson.
Srdjan Tufegdzic, betur þekktur sem Túfa, þjálfari KA, var sáttur með jafnteflið í dag. Ég er
sáttur með að við tökum fyrsta stig sumarsins með okkur heim. Ég var ekki sáttur með
hvernig við byrjuðum leikinn, að lenda undir eftir eina mínútu var mjög erfitt og gerði það að
verkum að við þurftum að elta. En ég er mjög ánægður með karakterinn hjá mínum mönnum.
Við lentum tvisvar sinnum undir, en við misstum aldrei haus og við náðum að jafna leikinn.
Við áttum hættuleg færi og hefðum getað bætt þriðja markinu við. En þetta var sanngjarnt
jafntefli held ég.
Túfa var ekki sáttur með byrjun sinna manna í dag. Ég þarf að tala við strákana og athuga
hvort spennustigið hafi verið of hátt eða þeir aðeins of stressaðir. En við vorum með tvo
leikmenn í dag sem hafa aldrei byrjað leik í Pepsi-deildinni áður og ég er ánægður með að
strákarnir komu til baka í dag.
Fyrir mót var talað um að KA vantaði breidd í sitt lið, aðspurður sagðist Túfa ekki hafa
áhyggjur af því. Ég er með 25 leikmenn og ég held að við getum farið langt saman í sumar.
Staðan á leikmannahópnum er svipuð í fyrra og ég hef mikla trú á mínum mönnum.
Það er erfið vika framundan, þrír leikir í Reykjavík á sjö dögum. Við þurfum að laga nokkra
þætti úr leiknum í dag, en við verðum klárir, sagði Túfa aðspurður um framhaldið en
Akureyringar spila næsta deildarleik aftur í Egilshöllinni, þá á móti Fylki. Ég verð að hrósa
Fjölnismönnum, mér fannst þeir með flotta umgjörð í dag. En ef ég ætti að velja væri ég
frekar til í að spila á grasinu á Extra-vellinum.
Hallgrímur Jónasson, leikmaður KA, var þokkalega sáttur með stigið í leikslok. Mér fannst
frammistaða okkar vera kaflaskipt. Við áttum mjög erfiða byrjun, ekkert lið vill fá á sig mark
á fyrstu mínútu. Við vorum lengi að komast inn í leikinn en svo kom kafli þar sem við
spiluðum vel. Við lendum tvisvar undir í dag en komum til baka tvisvar. Við fengum tvö til
þrjú færi einn á móti markmanni, þannig þetta var bæði jákvætt og neikvætt í dag.
Hallgrímur kom heim úr atvinnumennsku fyrir tímabilið frá danska félaginu Lyngby. Ég vissi allan tímann að þetta myndi enda svona einn daginn: að ég kæmi heim, sagðiHallgrímur ánægður með að vera kominn heim.
Hallgrímur lítur björtum augum á sumarið. Ég sá Val spila á móti KR í gær og leikina í dag.Það eru tíu ár síðan ég var hérna heima og það er gaman að sjá að það eru mörg lið að spila fótbolta núna. Ég held að þessi deild verði jafnari en margir halda og ég held að þetta verði skemmtilegt sumar.
Næsti leikur Akureyringa er gegn Haukum í Mjólkurbikarnum Það verður mikið álag á næstunni. Við erum ekki með okkar allra sterkasta lið og það eru kannski fleiri meiddir en þið haldið í liðinu, sem spiliðu til að mynda í leiknum í dag. Þetta verður því erfitt en það er alltaf gaman að spila bikarleiki.
Almarr Ormarsson var ekki sáttur með jafnteflið í dag. Ég hefði viljað taka öll þrjú stigin.
Mér fannst við verða aðeins betra liðið í dag og það hefði verið sætt að stela sigrinum í lokin.
Almarr gekk í raðir Fjölnis úr KA í vetur og var því að spila gegn sínum gömlu liðsfélögum í
dag. Þetta var skrýtin tilfinning. Þetta er í fyrsta skipti á ferlinum sem ég spila á móti
uppeldisfélaginu í alvöru mótsleik. En ég var ekki að hugsa of mikið um það, ég var bara að
spila fótboltaleik og gera mitt besta fyrir mitt félag.
Almarr var nokkuð sáttur með sinn leik í dag. Ég stóð mig þokkalega varnarlega en hefði
mátt koma meira inn í þetta sóknarlega. Þetta var fínn fyrsti leikur.
Extra-völlur Fjölnismann er ekki klár fyrir sumarið og var leikurinn í dag því spilaður í
Egilshöll. Ég fattaði ekki hvað það var skrýtið fyrr en leikurinn var flautaður á. Ég var ekkert
að hugsa um að það í vikunni eða í upphituninni. Þetta skiptir samt engu máli, bæði lið eru
vön að spila í höllum sem þessum. En ég vona að meirihlutinn Pepsi-deildarinnar verði
spilaður útanhúss í framtíðinni.
Næsti leikur Fjölnis er gegn Magna í Mjólkurbikarnum. Ég þekki marga úr Magna, þar eru
mikið af gömlum Akureryingum og þeir kunna alveg að spila fótbolta. Þetta verður erfiður
leikur Við höfum verið að ströggla á móti liðum úr Inkasso-deildinni í vetur og þetta verður
strembið verkefni.
Þetta var skemmtilegur leikur en ég er hins vegar svekktur með að hafa ekki náð að vinna
leikinn. Við gerum mistök í mörkunum, en það er jákvætt að við getum bætt okkur þar, sagði
Ólafur Páll Snorrason, þjálfari Fjölnis, eftir leikinn í dag.
Ólafur Páll var sáttur með leik síns liðs og ánægður með stigið í dag.
Ég hefði samt viljað stela sigrinum í dag. Það vantaði smá áræðni fyrir framan markið. Við
vorum stundum lengi að taka ákvarðanir og hefðum átt að klára sóknirnar fyrr.
Valmir Berisha er nýgenginn í raðir Fjölnisliðsins og mætti beint á bekkinn í dag. Ólafur setti
hann inn á síðari hálfleik og var Svíinn nálægt því að skora sigurmark undir lok leiksins þegar
skot hans fór hárfínt fram hjá. Hann hefði getað gert ákveðna hluti aðeins betur. En hann er
hörkufótboltamaður og þarf að koma sér inn í hlutina. Hann er flottur karakter og ég var
ánægður með að koma honum inn í þennan leik, sagði Ólafur um Valmir og bætti því við að
Svíinn myndi spila meira í næstu leikjum.
Næsti leikur Fjölnismanna er gegn Magna í Bikarkeppninni en næsti leikur þeirra í deildinni
er gegn ÍBV. Við eigum tvo mjög erfiða leiki í næstu viku. Ég einbeiti mér núna fyrst og
fremst að bikarleiknum gegn Magna og vil ná í góð úrslit þar.
Magnús Már Einarsson hjá fotbolti.net heyrði í Daníel Hafsteinssyni sem gerði einmitt fyrra mark KA. Fjölnismegin þá heyrði hann í Ólafi Pál þjálfara og Valgeir Lunddal. Gefum Magnúsi orðið.
Daníel Hafsteinsson, 18 ára miðjumaður, skoraði í sínum fyrsta byrjunarliðsleik í Pepsi-deildinni með KA í dag. Daníel skoraði í 2-2 jafntefli gegn Fjölni eftir að hann slapp óvænt einn í gegn í fyrri hálfleik.
Geiri (Ásgeir Sigurgeirsson) var að hlaupa með boltann og ég ætlaði að búa til eitthvað fyrir hann. Síðan endaði ég með boltann einn í gegn og renndi honum í hornið. Þetta gerðist einhverneginn bara," sagð Daníel um markið en hann var ekki sáttur með að fá eitt stig úr leiknum.
Við gáfum frekar einföld mörk og það eru einfaldir hlutir sem við verðum að laga. Ég er ekki sáttur með stigið."
Leikurinn í dag fór fram inni í Egilshöll og leikmenn voru orðnir mjög þreyttir undir lok leiks.
Hávaðinn var til fyrirmyndar. Ég hélt að við værum komnir á Nou Camp eða eitthvað. Það er samt heitt þegar fólk safnast saman hérna. Ég var 18 ára með krampa, ég er ekki vanur því. Ég dröslaðist inni á vellinum og reyndi að klara þetta. Þetta var mjög erfitt," sagði Daníel að lokum.
Við hefðum átt að stela sigrinum í lokin. Við vorum að færa boltann vel á milli manna og vorum óheppnir að stela ekki sigrinum," sagði Ólafur Páll Snorrason, þjálfari Fjölnis, eftir 2-2 jafntefli gegn KA í fyrstu umferð Pepsi-deildarinnar í dag.
Valgeir Lunddal Friðriksson, 16 ára, var í byrjunarliði Fjölnis í dag en hann er yngsti leikmaðurinn til að spila með félaginu í efstu deild.
Hann var frábær. Hann getur plummað sig í þessari deild á móti hörkuleikmanni. Hann var varnarlega að spila á móti þeirra besta manni, Hallgrími (Mar Steingrímsyni) og hann stoð sig frábærlega."
Leikurinn í dag fór fram inni í Egilshöll þar sem grasið á Extra-vellinum er ekki tilbúið.
Mér fannst þetta vera frábært. Það voru mikil læti og það heyrðist ekki alltaf í manni. Þetta breytist í næstu viku þegar við spilum úti í Vestmannaeyjum og svo spilum við úti eftir það held ég," sagði Ólafur Páll.
Fjölnir er búið að gefa mér helling af möguleikum og ég er mjög sáttur með að byrja fyrsta leikinn," sagði Valgeir Lunddal Friðriksson leikmaður Fjölnis við Fótbolta.net eftir 2-2 jafntefli gegn KA í dag.
Valgeir er fæddur árið 2001 en hann er einungis 16 ára gamall. Hann er yngsti leikmaðurinn í sögunni til að spila leik með Fjölni í efstu deild.
Valgeir hefur spilað talsvert á undirbúningstímabilinu með Fjölni en bjóst hann við að fá sénsinn í byrjunarliðinu í fyrsta leik?
Ég bjóst ekki við að fá að byrja fyrsta leik en ég bjóst við að fá einhverjar mínútur í sumar," sagði Valgeir. Á æfingu í gær var stillt upp í lið. Ég var ekki alveg viss um að fá að byrja en maður undirbýr sig alltaf þannig."
Ég var smá stressaður inni í klefa en Óli Palli (þjálfari Fjölnis) bakkar mig upp."
Hörður Snævar Jónsson tók þjálfarana þá Túfa og Ólaf Pál Snorrason í viðtal fyrir 433.is og heyrði einnig í okkar fyrrum leikmanni, Almarri Ormarssyni.
Srdjan Tufegdzic, þjálfari KA, var ósáttur með hvernig sínir menn byrjuðu leikinn í Pepsi-deild karla í dag er liðið gerði 2-2 jafntefli við Fjölni.
,,Þetta var skemmtilegur leikur fyrir áhorfendur í dag en ég er ósáttur með hvernig við komum inn í leikinn, sagði Túfa.
,,Við vorum í basli fyrstu 10 mínúturnar að koma inn í leikinn en að lenda tvisvar sinnum undir á útivelli og koma til baka og vorum með tækifæri til að afgreiða leikinn þá er ég ánægður.
,,Það hefur alltaf verið okkar styrkleiki að vera þéttir til baka en kannski koma menn smeykir inn í fyrsta leik.
Almarr Ormarsson, leikmaður Fjölnis, gat sætt sig við stigí dag er liðið mætti KA í fyrstu umferð Pepsi-deildar karla. Leiknum lauk með 2-2 jafntefli.
,,Mér fannst við eiga meira inni í lokin. Þetta var jafn og hörkuleikur og jafntefli þokkalega sanngjarn niðurstaða, sagði Almarr.
,,Í undanförnum æfingaleikjum höfum við verið að fá of mikið af mörkum á okkur og við þurfum að skoða af hverju það gerist.
,,Ég held að við getum endað í 1-12 sæti. Við höfum sýnt það í vetur að við getum unnið hvaða lið sem er og tapað gegn hvaða liði sem er.
Ólafur Páll Snorrason, þjálfari Fjölnis, hefði viljað stigin þrjú í dag er liðið gerði 2-2 jafntefli við KA í fyrstu umferð Pepsi-deildar karla.
,,Við hefðum átt að stela sigrinum í lokin. Við færðum boltann vel á milli manna og óheppnir að stela ekki sigrinum, sagði Óli Palli.
,,Nú er mótið byrja. Það eru ekki alltaf stóru liðin sem byrja þegar mótið byrjar, líka minni liðin.
,,Auðvitað hefði ég viljað halda forystunni lengur en það jákvæða við það er að við erum að gera aulamistök sem er hægt að koma í veg fyrir.
Ritstjóri 433.is tók eftir blokk sem Óli Palli skrifaði mikið í og minnti hann örlítið á Rafael Benitez, stjóra Newcastle, sem er mikið í blokkinni.
,,Þú ert beint fyrir aftan mig og sást hvað ég skrifaði? Maður verður að setja niður hluti sem maður sér svo maður gleymir þeim ekki þegar maður þarf að tala um þá.