Rétt áður en meistaraflokkur hélt suður á bóginn var pennanum góða kastað á milli manna í KA heimilinu þegar þeir Fannar Hafsteinsson, Orri Gústafsson og Ævar Ingi Jóhannesson skrifuðu allir undir nýjan samning sem gildir til tveggja ára.
Fannar Hafsteinsson er markmaður, fæddur 1995. Hann hefur leikið 2 leiki með meistaraflokk í deild og bikar en hann þykir með efnilegri markvörðum hérlendis og víðar. Fyrir 2 árum síðan fór hann til reynslu hjá Tottenham Hotspurs og hefur verið undir smásjá margra erlendra liða frá þeim tíma. Hann hefur þó átt við erfið meiðsli að stríða síðan í sumar en það styttist í að við fáum að sjá hann í rammanum á nýjan leik.
Orri Gústafsson er framherji, fæddur 1990. Hann er uppalinn á Englandi þar sem hann bjó til 16 ára aldurs en lék þó með yngri flokkum BÍ og ÍBV nokkur sumur. Hann gekk til liðs við KA 16 ára og kom því inní 2.flokk félagsins. Hjá KA hefur hann verið frá þeim tíma að undanskildu einu ári þar sem hann hélt til Japans í nám. Hann á að baki 44 leiki og 2 mörk í deild og bikar fyrir KA.
Ævar Ingi Jóhannesson er kanntmaður, fæddur 1995. Ævar er uppalinn hjá KA og leikið upp alla yngri flokka félagsins. Hann er gríðarlegt efni og á að baki 15 landsleiki með U-17 og U-19 landsliðum Íslands. Hans fyrsta heila tímabil með meistaraflokk var síðasta tímabil en hann lék 19 leiki í deild og bikar og þótti hann standa sig með prýði þrátt fyrir ungan aldur og má fastlega búast við því að hlutverk hans í sumar verði stærra en árið áður.
Heimasíðan óskar drengjunum innilega til hamingju með nýjan samning.