Í dag mættust KA og BÍ/Bolungarvík á Akureyrarvelli og lauk leiknum með 1-0 sigri okkar manna í baráttuleik þar sem KA voru töluvert sterkari aðilinn og greinilegt að leikmenn KA voru hungraðir í stigin þrjú. Hallgrímur Mar skoraði eina mark leiksins og var það af dýrari gerðinni, beint úr aukaspyrnu af 25 metra færi og átti markvörður BÍ/Bolungarvíkur aldrei séns. Langþráður sigur KA eftir slæmt gengi í undanförnum leikjum.
KA 1 - 0 BÍ/Bolungarvík
1-0 Hallgrímur Mar Steingrímsson ('39)
Lið KA í dag: Sandor Matus, Ómar Friðriksson, Atli Sveinn Þórarinsson, Ivan Dragicevic, Jón Heiðar Magnússon, Davíð Rúnar Bjarnason, Orri Gústafsson (Ævar 68.mín), Bessi Víðisson (Kristján 80.mín), Hallgrímur Mar Steingrímsson, Bjarki Baldvinsson, Carsten Pedersen (Gunnar Valur 91.mín).
Bekkur: Fannar Hafsteinsson, Gunnar Valur Gunarsson, Andrés Vilhjámsson, Gunnar Már Magnússon, Ævar Ingi Jóhannesson, Kristján Freyr Óðinsson, Fannar Freyr Gíslason.
Ein breyting var gerð á liði KA frá tapinu gegn Haukum í síðustu umferð. Bessi Víðisson kom inn í byrjunarliðið í staðinn fyrir Brian Gilmour sem var kominn á meiðslalistann. En Darren Lough og Mads Rosenborg voru einnig fjarri vegna meiðsla. Ein jákvæð tíðindi komu þó úr meiðslafregnum frá KA liðinu því Gunnar Valur var mættur í hóp hjá KA í fyrsta sinn á tímabilinu og er það gríðarlegt fagnaðarefni. Sem og að Ævar Ingi var kominn á bekkinn eftir að hafa verið meiddur frá því í fyrstu umferð.
Upphafsmínútur leiksins voru heldur rólegar og voru bæði lið að þreifa fyrir sér og ekkert um marktækifæri. Það fyrsta markverða sem gerðist í leiknum var þegar að Djúpmenn áttu góða sendingu aftan við Ómar í bakverðinum þar sem Andri Rúnar Bjarnason lék á Ómar og komst í flott færi en Sandor var vandanum vaxinn og varði knöttinn en boltinn barst til Max Toulette sem skaut að marki en Jón Heiðar Magnússon bjargaði á línu með skalla.
Í rauninni var þetta síðasta markverða tækifæri Djúpmanna í fyrri hálfleik og var restin af hálfleiknum algjör eign okkar manna. Eftir ríflega korters leik átti KA tvær hættulegar sóknir. Í þeirri fyrri átti Jón Heiðar Magnússon flotta sendingu inn fyrir vörn gestanna á Hallgrím sem keyrði upp að endamörkum og gaf fyrir á Carsten skaut yfir úr fínu færi úr teignum. Í þeirri seinni átti Bessi stórkostlega sendingu inn fyrir vörn BÍ/Bolungarvíkur á Orra sem var stigin út af varnarmanni gestanna og vildu margir stuðningsmenn KA fá dæmt brot á leikmann gestanna og þar af leiðandi rautt spjald þar sem um var að ræða aftasta varnarmann þeirra. En sóknin var þó ekki búinn því Ómar vann boltann að harðfylgi og gaf á Hallgrím í teignum sem átti síðan skot sem fór hárfínt framhjá. Hættuleg sókn hjá KA.
Næstu mínútur leiksins voru heldur rólegar og lítið að gerast. En það var svo á 32. mínútu sem Jón Heiðar Magnússon átti innkast á Hallgrím sem gaf fyrir á Bessa sem lagði boltan laglega fyrir Carsten sem gaf út fyrir á fyrirliðan Atla Svein sem var mættur fram og gerði sig líklegan til að skjóta að marki en gaf boltann til Bessa sem átti hættulegt skot sem fór af varnarmanni Djúpmanna og í horn. Eftir þetta sóttu KA án afláts. Nokkrum mínútum síðar brá fyrirliðin sér aftur í sóknina og fékk stórhættulegt færi í markteig gestanna eftir sendingu frá Jóni Heiðari en skotinu frá Atla var bjargað á línu. Hættulegasta færi KA manna í fyrri hálfleiknum og gestirnir stálheppnir að lenda ekki undir.
Pressan frá KA skilaði sér síðan nokkrum mínútum síðar þegar að brotið var á Hallgrími og KA fengu aukaspyrnu. Hallgrímur Mar lét þá bara vaða af ríflega 25 metra færi og boltinn söng í netinu. Óverjandi fyrir markvörður gestanna sem var ekki nálægt því að verja spyrnu Hallgríms. Frábær spyrna hjá Hallgrími og verðskulduð forysta KA því staðreynd og fór liðið með 1-0 forystu inn í hálfleikinn.
Síðari hálfleikur hófst líkt og sá fyrri með færi frá gestunum snemma á upphafsmínútunum en Sandor varði vel þegar að Djúpmenn komust í ákjósanlegt færi. Næstu mínútur voru KA menn mun hættulegri og líklegri til að bæta við marki en að gestirnir myndu jafna metin. Á 52. mínútu átti Bessi flotta utanfótar sendingu inn fyrir vörn gestanna á Carsten sem var kominn aleinn á móti markverði gestanna en lét verja frá sér í algjöru dauðafæri. Carsten hefði átt að gera betur og KA menn óheppnir að vera ekki komnir í 2-0. Nokkrum mínútum síðar sýndi arkítektinn að sóknarleik KA manna í leiknum, Bessi Víðisson frábæra takta þegar að hann lék á varnarmenn Djúpmanna með Zinedine Zidane töktum og renndi boltanum á Carsten í teignum sem náði ekki nægilega vel að teygja sig í boltann og átti máttlaust skoti að marki og var Carsten óheppinn að opna ekki markareikning sinn fyrir KA.
Eftir þetta sóttu liðin til skiptis og en var Carsten Pedersen í eldlínunni en honum brást bogalistin. Á 85. mínútu fengu gestirnir síðan besta færi sitt í leiknum þegar að þeir komust upp að endamörkum og gáfu fyrir á Alexander Veigar Þórarinsson sem átti máttlausan skalla framhjá úr dauðafæri inn í markteig. Tveimur mínútum síðar vildu gestirnir fá vítaspyrnu þegar að boltinn fór í hönd Hallgríms inn í vítateig okkar og var um svipað atvik að ræða og í síðasta heimaleik gegn Víkingum þegar að við vildum fá vítaspyrnu en líkt og í síðasta leik var enginn vítaspyrna dæmd en hefði verið um ansi strangan dóm að ræða hefði það orðið niðurstaðan. Eina sem gestirnir uppskáru upp úr þessu var gult spjald á Dennis Rasmussen Nielsen sem fékk sitt annað gula spjald og var þar með sendur í bað og gestirnir einum færi það sem eftir lifði leiks. Ekkert markvert gerðist það sem eftir lifði leiks nema það að Gunnar Valur kom inn fyrir KA undir lokin og var gaman að sjá hann aftur á vellinum eftir erfið meiðsli. Sanngjarn sigur KA því staðreynd og fyrsti heimasigurinn á þessu tímabili kominn í hús og fyrsti sigur KA síðan í fyrstu umferð. Einnig ánægjuefni að liðið hélt hreinu í annað sinn á tímabilinu og voru sprækir fram á við í nokkuð kaflaskiptum leik þar sem við vorum töluvert betri aðilin.
KA-maður leiksins: Jón Heiðar Magnússon ( Átti frábæran leik í bakverðinum í dag og tapaði varla návígi. Einnig átti hann góðar sendingar upp kantinn á Hallgrím sem og flottar fyrirgjafir.) Aðrir sem gerðu tilkall til manns leiksins voru þeir Hallgrímur Mar og Bessi Víðisson sem voru afar líflegir í sóknarleik KA í dag. Einnig verður að gefa varnarlínu KA og Sandor hrós fyrir að hafa haldið hreinu og verið örugg í öllum sínum aðgerðum í leiknum.
Næsti leikur KA er útileikur gegn Tindastól á fimmtudaginn næstkomandi og er vonandi að KA menn fjölmenni á þann leik og styðji liðið til sigurs. Næsti heimaleikur er síðan gegn Völsungi þann 4.júlí. Áfram KA !