Elfar Árni besti maður 6. umferðar

Elfar Árni er duglegur að koma knettinum í netið
Elfar Árni er duglegur að koma knettinum í netið

Fotbolti.net velur ávallt besta leikmann í hverri umferð í Inkasso deildinni og að þessu sinni er það Elfar Árni Aðalsteinsson leikmaður KA sem varð fyrir valinu. Elfar Árni átti góðan leik í frábærum 0-2 útisigri KA á Leikni R um helgina og var hann gripinn í viðtal hjá Fotbolti.net sem við birtum hér.

„Þetta var hörkuleikur, það hjálpaði okkur mikið að fá mark í byrjun leiks sem varð til þess að Leiknismenn þurftu að koma framar á völlinn," segir Elfar Árni Aðalsteinsson, leikmaður KA, um 2-0 sigur liðsins á Leikni R. í Inkasso-deildinni um síðustu helgi. 

Elfar er leikmaður umferðarinnar í Inkasso-deildinni en hann var potturinn og pannann í sóknarleik KA á sunnudaginn. 

„Mér fannst við vera sterkari í fyrri hálfleik og vorum að ógna ágætlega. Í upphafi seinni hálfleiks missa þeir mann af velli sem kveikir aðeins í þeim, en við náðum að loka vel á þá og helstu tækifæri þeirra voru úr föstum leikatriðum. Svo þegar við setjum annað markið seint í leiknum þá náum við að drepa leikinn. Þannig við erum heilt yfir sáttir með spilamennskuna í leiknum og mjög ánægðir með að ná í sigur á þessum erfiða útivelli." 

KA skaust á toppinn með sigrinum en liðið er með þrettán stig eftir sex umferðirþ 
„Ég er þokkalega sáttur með byrjunina, það er varla annað hægt þar sem við erum efstir í augnablikinu. Stigasöfnunin hefur verið góð, við getum þó enn bætt spilamennsku okkar á ýmsum sviðum." 

KA er með mjög sterkan leikmannahóp og félagið hefur fengið marga öfluga leikmenn í sínar raðir. Er pressan mikil á liðinu í sumar? 

„KA hefur verið lengi í miðjuhnoði í 1. deildinni og stefnan er að gera betur í þeim málum. Það er okkar yfirlýsta markmið að komast upp þannig það má alveg líta á það sem pressu. Við erum með öflugt lið og gerum kröfu á okkur að berjast um þetta og reyna ná þessu markmiði," sagði Elfar en hann telur að liðið sé betra en í fyrra þegar KA endaði í 3. sæti deildarinnar. 

„Já ég myndi segja það, við misstum mikilvæga leikmenn eftir síðasta tímabil en náðum að fylla ágætlega í þau skörð. Fyrir þetta tímabil var leikmannahópurinn líka klár í febrúar fyrir utan Guðmann sem kom í lok gluggans. Meðan í fyrra voru nokkrir leikmenn að týnast inn rétt fyrir mót. Þannig við höfum haft meiri tíma til að undirbúa okkur saman fyrir sumarið." 

Hlé er í Inkasso-deildinni á meðan Ísland tekur þátt á EM en Elfar Árni er ánægður með það. 

„Það er fínt að fá þetta EM hlé, það eru flestir Íslendingar með hugann við EM þannig mætingin og stemningin í kringum Inkasso deildina og öðrum deildum á Íslandi er ekki efst á baugi þessa dagana. Það gefur líka leikmönnum í deildinni tækifæri til að kíkja á stemninguna í Frakklandi," sagði Elfar Árni sem er ekki sjálfur í Frakklandi. 

„Ég er ekki Í Frakklandi en eftir geðveikina í leiknum gegn Portúgal íhugaði ég reyndar alvarlega að hoppa upp í næstu vél til Frakklands með félögunum, en ég gat því miður ekki klárað það dæmi. Ég verð þá fyrstur í vélina fyrir næsta stórmót," sagði Elfar.