Á morgun koma Djúpmenn í heimsókn til okkar og etja kappi við okkar lið. Leikurinn hefst kl 14.00. Bí/Bolungarvík hafa byrjað mótið af miklum krafti og verið eitt besta lið deildarinnar það sem af er móti. Liðið situr í 2. sæti með 15 stig jafnmörg og topplið Grindavíkur en eru með lakari markatölu. Á meðan KA liðið situr í 10. sæti með 4 stig eftir 6 leiki.
Gengi BÍ/Bolungarvíkur hefur komið töluvert á óvart það sem af er sumri og hafa þeir klárlega verið spútnik lið sumarsins. Liðinu stýrir Jörundur Áki Sveinsson en hann er á sínu öðru ári sem þjálfari liðsins. Djúpmenn hófu mótið á sigri gegn Húsvíkingum og Þrótturum og sátu í efsta sæti deildarinnar eftir fyrstu tvær umferðirnar. Í þriðju umferð mættu þeir hinsvegar ógnarsterku liði Grindvíkinga sem tóku þá í karphúsið 6-1. Eftir útreiðina gegn Grindvíkingum fylgdu síðan þrír sigurleikir í röð gegn Selfossi, Fjölni og KF.
Á síðustu leiktíð endaði BÍ/Bolungarvík í 9. sæti í deildinni. En síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og hafa orðið miklar breytingar á leikmannahóp liðsins. Ber þar helst að nefna Nigel Quashie fyrrum leikmann West Ham sem gékk til liðs við Djúpmenn frá ÍR-ingum og Max Touloute og Ben Eversen frá Tindastól. Á þessu tímabili hafa Nigel Qashie, Ben Everson og Alexander Veigar Þórarinsson verið atkvæðamestir hjá Djúpmönnum með þrjú mörk hver. Þess má til gamans geta að BÍ/Bolungarvík er næst markahæsta lið deildarinnar með 14 mörk en liðið hefur einnig fengið á sig flest mörk allra liða í deildinni. Í leikjum Djúpmanna hafa verið skoruð að meðaltali 4,5 mörk í leik og má því búast við miklu fjöri á laugardaginn.
Líkt og fyrir síðasta leik KA höfum við fengið stuðningsmenn KA til að spá fyrir um komandi leik á léttan máta og láta reyna á spádómshæfileika sína. Í síðustu umferð leyndist enginn Nostradamus í hóp þeirra spámanna sem haft var samband við og vonandi að einhver reynist sannspár að þessu sinni.
Spámenn umferðinnar:
Bjarni Jónasson, KA-maður:Leikurinn leggst ekkert sérlega vel í mig, ef ég á að segja alveg eins og er. Liðið hefur ekki spilað nægilega vel í undanförnum leikjum en það er vonandi að við vendum okkur kvæði í kross og förum að vinna eins og eitt stykki leik. Það væri svo að sjálfsögðu ekkert verra að gera það á móti liðsmönnum Herdísar Sigurbergsdóttur.
Varðandi úrslit leiksins þá er svosem ástæða til þess að vera svartsýnn, en við skulum skilja slíkar tilfinningar eftir heima og segja að leikurinn endi 2-1. Mörk KA-manna skora Hallgrímur og Bauninn Carsten en Quashie hendir í eitt sárabótamark undir lok leiks.
Ólafur Jóhann Magnússon, KA-maður: Þessi leikur leggst helvíti vel í mig, þrátt fyrir vonbrigðin undarfarið. Ég hef trú á að Bjarni Jó peppi okkar menn í gang og þessi leikur verði upphafið að Íslandsmótinu að hálfu okkar KA-manna.
Þessi leikur verður agaður að hálfu KA-manna og Sandor þarf ekki að sækja boltann í markið á laugardaginn. Aftur á móti hinu megin á vellinum mun Brian setja eitt mark eftir klafs í teignum og Atli Sveinn innsiglar sigurinn með skalla eftir hornspyrnu rétt fyrir leikslok. 3 mikilvæg stig í barráttunni sem er framundan.
Sævar Geir Sigurjónsson, KA-maður: KA vinnur 3-0, þetta er leikurinn sem kemur KA mönnum í gang. Hallgrímur Mar með tvö og Bjarki Baldvins með eitt. KA verður með yfirburðar spil allann leikinn.
Við hvetjum svo alla KA menn að fjölmenna á leikinn á laugardaginn og styðja liðið til sigurs. Áfram KA !