Dagurinn var tekinn einstaklega snemma að þessu sinni en menn voru vaktir og sendir í morgunmat klukkan 3:30 í Keflavík eftir stuttan nætursvefn á fínu hóteli þar í bæ. Eins og gefur að skilja gekk misvel að koma mönnum í þetta nætursnarl en allir skiluðu sér þó á tíma sem má skilgreina rétt innan ramma laganna. Bjarni þjálfari hvatti leikmenn að nærast vel enda langt ferðalag fyrir höndum
Það þarf ekki að eyða mörgum orðum í klukkutímanna sem fóru í hönd, enda hafa líklega flestir þurft að vakna eldsnemma til að eyða góðum tíma í flugstöðinni sem jafnan er kennd við Leif, þetta er aldrei sérstaklega skemmtilegt en stemmingin í hópnum var mjög góð og menn léttir í lund.
Það markverðasta sem gerðist á þessu ferðalagi í dag, að mati fréttaritara, er að í flugstöðinna voru ásamt KA, mættir Framarar, Fylkir og Stjarnan ásamt kvennaliði Breiðabliks og allir á leið á sama áfangastað. Allir okkar strákar voru í eins göllum, merktir félaginu og litu út eins og alvöru félag sama má segja um kvennalið blika en aðra sögu er hins vegar að segja af ofantöldum karlaliðum, þar mættu menn bara eins og túristar í sínum tískufatnaði. Þetta þótti mér að mörgu leiti merkilegt og jafnframt gaman að sjá KA (ásamt blikum) standa uppúr hvað varðar fagmennsku.
Velkomin til Alicante, hitastigið er 23 gráður ropaði kafteinninn útúr sér stuttu eftir lendingu og fékk maður vægast sagt eilítið vor í punginn. Menn náðu að sofa vel í vélinni og aðeins að rétta af svefnleysi næturrinnar þó flugvélar séu ekki sérstaklega hannaðar með þægindi höfð að leiðarljósi.
Við tók 30 mínútna akstur til San Pedro Del Pinatar þar sem hótelið og æfingasvæðið er staðsett, allir tékkaðir inn og fengu dýrindismáltið í kaffitímanum, þá fyrstu af einhverju viti í allan dag og ansi margir búnir að kvarta sáran yfir yfirvofandi næringarskorti.
Bjarni þjálfari tók í kjölfarið stuttan fund og fór yfir ákveðnar reglur sem gilda í ferðinni ásamt skipulagi fyrir daganna og var fyrst á dagskrá létt æfing til að hrista aðeins upp í stirðum líkömum og aðeins að koma blóðfæðinu af stað. Að vanda var mjög góð stemming á æfingunni og allir léttir, ljúfir og kátir.
Hápunktur dagins fyrir undirritaðan, sem getur aðeins talað fyrir sjálfan sig, var þegar kvöldverður var lagður á borðið en þar voru sannkallaðar kræsingar á boðstólnum. Flottur salatbar, senorita á grillinu sem steikti kjúkling og fisk ofaní viðstadda og að sjálfsögðu meðlæti. Allt þetta stóðst væntingar og vel það en eftirréttarhlaðborðið setti síðan kirsuberið á toppinn. Læt ekki hafa eftir hvað var þar á boðstólnum en viðurkenni fúslega að undirritaður át sig fullsaddann og rúmlega það.
En nú er dagur þó að kveldi kominn og menn komnir í kojur enda klukkan orðin 23:19 að staðartíma og langur dagur að baki.
Hvet fólk til að fylgjast með Facebook síðunni okkar KA-Sport.is en þar koma inn myndir yfir daginn og eftir hvern dag.
- Jóhann Már Kristinsson