Breytingar hafa orðið á þjálfarateymi KA en Eggert Sigmundsson hefur látið af störfum sem markmannsþjálfari og tekur Srdjan Rajkovic Rajko við af honum. Þá framlengdi Óskar Bragason samning sinn við KA sem er mikið gleðiefni.
Rajko leggur því hanskana á hilluna frægu og mun ekki leika með KA í Pepsi-deildinni á komandi sumri.
Það eru gleðitíðindi að halda Rajko hjá félaginu, þrátt fyrir að hann sé hættur að spila. Hann er 41 árs gamall.
Þá er Eggert Sigmundssyni þökkuð gríðarlega góð og óeigingjörn störf fyrir KA á undanförnum árum. Þrátt fyrir að vera ekki í þjálfarateyminu næsta sumar mun hann bókað vera fastagestur í stúkunni og hvetja strákana áfram.
Þjálfarateymi KA fyrir komandi tímabil er því fullmannað. Það samanstendur af Srdjan Tufegzic sem aðalþjálfara. Óskar Bragason er honum til aðstoðar. Rajko mun sjá um markmannsþjálfun, Anna Birna Sæmundsdóttir er liðstjóri og Helgi Steinar Andrésson er sjúkraþjálfari. Síðastur og alls ekki sístur er að sjálfsögðu Dr. Petar Ivancic, búningastjóri.
Í meðfylgjandi myndbandi má sjá nokkrar af allra bestu markvörslum Rajko í gegnum tíðina hjá KA.