Breiðablik lagði Þór/KA í hörkuleik

Frábær fyrri hálfleikur dugði ekki til gegn Blikum
Frábær fyrri hálfleikur dugði ekki til gegn Blikum

Kvennalið Þórs/KA tók í gær á móti verðandi Íslandsmeisturunum í Breiðablik. Fyrir leik var ljóst að verkefnið var erfitt fyrir okkar stúlkur enda var lið Breiðabliks ósigrað í deildinni og verið að spila mjög góðan bolta í sumar.

Þór/KA 1 - 2 Breiðablik
1-0 Lillý Rut Hlynsdóttir ('25)
1-1 Telma Hjaltalín Þrastardóttir ('47)
1-2 Fanndís Friðriksdóttir ('62)

Þór/KA hóf leikinn af miklum krafti og greinilegt að liðið ætlaði sér öll stigin enda í harðri baráttu um 3. sætið í deildinni. Sonný Lára Þráinsdóttir í marki gestanna var vel á verði og kom í veg fyrir að okkar stúlkur næðu forystunni í upphafi en markið lá í loftinu.

Það var svo á 25. mínútu að Lillý Rut Hlynsdóttir kom okkar liði yfir með góðu marki, Lára Einarsdóttir tók hornspyrnu sem Kayla Grimsley kom áfram inn í teiginn þar sem Lillý var réttur maður á réttum stað og setti boltann í netið. Gott mark og forystan verðskulduð.

Stuttu síðar átti Klara Lindberg dauðafæri en skalli hennar rataði ekki á markið. Aftur fengu okkar stúlkur gott færi eftir hornspyrnu en Ágústa Kristinsdóttir skaut boltanum í stöngina og út. Staðan því 1-0 í hálfleik en Þór/KA hefði í raun átt að hafa stærra forskot.

Breiðabliksliðið er stórhættulegt og þær voru ekki lengi að jafna metin í síðari hálfleiknum. Telma Hjaltalín lét vaða fyrir utan teig og boltinn fór í stöng og inn, glæsilegt mark og staðan allt í einu orðin jöfn 1-1.

Eftir jöfnunarmarkið var við ramman reip að draga fyrir okkar lið og gestirnir stjórnuðu leiknum. Fanndís Friðriksdóttir skoraði svo markið sem kom Blikunum yfir eftir góða sókn þeirra. Nú var ljóst að Þór/KA þyrfti að gefa aftur í til að koma sér aftur inn í leikinn.

Erfiðlega gekk að fá færi en í uppbótartíma loksins var mikil hætta við mark Blika en Sonný varði vel frá Andreu Mist Pálsdóttur eftir töluverða baráttu í teignum. Niðurstaðan því 1-2 sigur Breiðabliks þar sem liðin áttu sinn hálfleikinn hvort, sárt að ná ekki stigi sem hefði verið sanngjarnt en sterkt lið eins og Breiðablik nýtir yfirleitt sín færi og það skóp sigurinn.

Á sama tíma vann Selfoss sinn leik sannfærandi og fór upp fyrir Þór/KA í 3. sætið. Liðin mætast svo í lokaumferðinni á Selfossi þar sem barist verður um hvort liðið endar í 3. sætinu. Selfoss er með pálmann í höndunum en Þór/KA þarf að sigra leikinn með tveimur mörkum eða meira til að fara upp fyrir Selfoss.