Eftir langan vetur er sól tekin að hækka verulega á lofti og það þýðir bara eitt; boltinn er byrjaður að rúlla. Úrvalsdeildin er nú þegar komin í gang og nk. laugardag verður fyrsta umferðin í 1. deild karla. KA-menn hefja leik á heimavelli þegar þeir taka á móti Víkingum frá Ólafsvík kl. 14:00. Leikurinn verður á nýja gervigrasvellinum sunnan KA-heimilisins og því verður þetta sannkallaður heimaleikur. Ár og dagur er síðan deildarleikur hefur verið spilaður á KA-svæðinu. Bjarni Jóhannsson, þjálfari KA, er hvergi banginn og býst við miklum baráttuleik á laugardaginn.
Þetta verður klárlega erfiður leikur en við förum í hann af fullum krafti og erum hvergi bangnir. Það er mín spá að mótið verði jafnt í ár eins og í fyrra og ég tel ómögulegt að segja til um fyrirfram hvaða lið koma til með að berjast um toppsætin. Ég minni á að í fyrra var Fjölnismönnum spáð 7. sæti í deildinni en þeir spila núna í Pepsídeildinni, segir Bjarni og bætir við að hann fagni því mjög að heimild hafi fengist til þess að spila leikinn á nýja gervigrasvellinum. Já, það er bara frábært að spila leikinn úti. Þetta er mjög góður völlur sem hefur nýst vel í vetur. Miðað við snjóþyngslin hér fyrir norðan hefur hann nýst mjög vel og það eru ekki margir dagar sem hafa fallið úr með æfingar á vellinum. Þetta er klárlega einn af þremur bestu gervigrasvöllum landsins og ef við berum saman grasið á vellinum og í Boganum er himinn og haf á milli, enda er grasið í Boganum barns síns tíma.
Bjarni er varkár þegar hann er spurður um markmið sumarsins. Ég er ekki tilbúinn að gefa út hvert markmið okkar er, enda má heita að við séum með splunkunýtt lið í höndunum. Þetta ár verður notað til þess að byggja liðið upp, en hins vegar missum við ekki sjónar af því takmarki, sem KA hefur haft í mörg ár, að fara með liðið upp í efstu deild. Þar á klúbburinn heima.
Miklar breytingar á KA-liðinu
Óhætt er að segja að KA-liðið sé gjörbreytt frá síðasta tímabili. Hvorki fleiri né færri en sextán leikmenn sem þá voru í hópnum hafa róið á ný mið en í þeirra stað hafa komið margir ungir og bráðefnilegir leikmenn sem uppaldir eru hjá KA. Við tókum nýja stefnu í þessum málum eftir síðasta tímabiil og í vetur höfum við verið að gefa ungum leikmönnum tækifæri. Það má ekki gleyma því að KA á óvenju marga drengi í yngri landsliðum Íslands og framtíðin er því björt hjá klúbbnum. Það býr mikið í þessum strákum en við gerum okkur grein fyrir því að þeir eru ungir og mótið er langt og erfitt. Við höfum líka verið að fá góða styrkingu og reynslu í leikmönnum eins og Jóhanni Helgasyni, Baldvini Ólafssyni og Hrannar Björn Steingrímsson er líka reynslumikill leikmaður þótt hann sé ungur að árum.
Og nýjasta viðbótin við leikmannahóp KA er litháenski framherjinn Arsenij Buinickij, sem kemur til liðsins frá Levadia í Eistlandi. Buinickij, sem er 28 ára gamall, er kominn með leikheimild og verður klár í slaginn nk. laugardag í leiknum gegn Víkingi Ólafsvík.
Við vonumst til að þessi nýjasti liðsstyrkur nýtist okkur vel. Okkur hefur vantað markaskorara undanfarin ár og vonandi höfum við fengið hann í Arsenij Buinickij.
Það er gaman að mótið skuli vera að byrja og mér líst bara vel á byrjunina. Ég tel okkur vera klára í slaginn. Okkur gekk bærilega í Lengjubikarnum og með heppni hefðum við getað nælt í fleiri stig. En það sem skiptir máli er að spilamennskan hjá liðinu var bara fín. Mér finnst svona heilt yfir að meiri stemning sé í hópnum núna en á sama tíma í fyrra og mér finnst liðið á margan hátt frískara núna. Ég geri ekki ráð fyrir miklum áherslubreytingum í spilamennsku liðsins frá því í fyrra, við komum til með að spila svipaðan bolta og þá, segir Bjarni Jóhannsson.