Landsliðsmaðurinn Birkir Bjarnason sagði í viðtali við fotbolti.net að hann væri KA-maður. Birkir leikur núna í Seriu A á Ítalíu með Sampdoria. Hann hefur verið einn af lykilmönnum Lars Lagerback sem leika í kvöld gegn Kýpur og á þriðjudaginn gegn Norðmönnum.
Birkir hóf að æfa knattspyrnu með KA ungur að árum en flutti fljótlega til Noregs. Hans síðustu leikir með KA voru á ReyCup þegar hann var 14 ára en þá kom hann í heimsókn frá Noregi.
Miðað við þann samanburð að hafa æft hjá KA þá telur hann að það sé betra að æfa í yngri flokkum á Íslandi en í Noregi.
,,Ég held að það sé almennt betra. Maður æfir meira og er með þjálfara sem eru menntaðir og fá borgað fyrir það. Það er ekki í Noregi, þar eru pabbar að þjálfa."
,,Þetta er annar æfingakúltúr í Noregi og maður fékk sjokk fyrst. Eftir að hafa æft fimm sinnum í viku á Íslandi fór maður allt í einu að æfa 1-2 í viku í Noregi og þá þurfti maður að æfa mikið einn."