Bikarslagur í Hafnarfirði á morgun

Elfar Árni í síðasta leik liðanna (mynd: Þ.Tr.)
Elfar Árni í síðasta leik liðanna (mynd: Þ.Tr.)

KA sækir Hauka heim að Ásvöllum á morgun í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins. Leikurinn hefst klukkan 14:00 og hvetjum við að sjálfsögðu alla sem geta til að mæta og styðja strákana áfram í bikarnum.

Haukar slógu út Vestra í síðustu umferð með 3-1 sigri þar sem Daði Snær Ingason, Arnar Aðalgeirsson og Birgir Þór Þorsteinsson gerðu mörk Hauka. Þar sem KA leikur í efstu deild hefur KA setið hjá í keppninni til þessa.

Liðin mættust síðast sumarið 2016 þegar liðin léku bæði í Inkasso deildinni, KA vann öruggan sigur í deildinni og tapaði einungis þremur leikjum það sumarið. Tvö af þeim töpum komu einmitt gegn Haukum og því ljóst að KA þarf að gera betur til að komast áfram í næstu umferð.

Haukar unnu einnig báðar viðureignir liðanna sumarið 2015 og nokkuð ljóst að KA liðið þarf að klífa þann múr sem Haukar hafa reynst okkur undanfarin ár.