Það er skammt stórra högga á milli hjá KA liðinu þessa dagana en liðið mætir FH í Kaplakrika á morgun, fimmtudag, í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins. Liðin mættust nýverið í Pepsi deildinni á sama stað og eftir markalausan fyrri hálfleik þá unnu Hafnfirðingar 3-1 sigur.
Leikurinn hefst klukkan 18:00 og hvetjum við að sjálfsögðu alla KA menn fyrir sunnan til að mæta og styðja strákana til sigurs. Bikarkeppnin er sérstök keppni þar sem hver einasti leikur er úrslitaleikur. Fyrir ykkur sem ómögulega komist þá verður leikurinn í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
KA sló út nágranna FH, Hauka, í 32-liða úrslitunum með 1-2 útisigri á Ásvöllum en FH vann 0-5 stórsigur á ÍR-ingum í sínum leik í Egilshöll.
Liðin hafa mæst fjórum sinnum í Bikarkeppninni og hafa liðin skipt sigrunum bróðurlega á milli sín. KA sló út FH í undanúrslitum keppninnar árið 2001 með 0-3 sigri í Kaplakrika með mörkum frá Hreini Hringssyni, Ívari Bjarklind og Þorvaldi Makan Sigbjörnssyni.
KA endurtók leikinn árið 2004 þegar KA vann 1-0 sigur í undanúrslitaviðureign liðanna á Laugardalsvelli en Hreinn Hringsson gerði eina mark leiksins. FH hafði nýlega hampað sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli og var sigur KA því frekar óvæntur enda féll liðið úr efstu deild.
FH hefur hinsvegar unnið síðustu tvær viðureignirnar, árið 2005 unnu Hafnfirðingar 3-1 og 2010 unnu þeir 3-0 sigur. Báðir þessir leikir fóru fram í Kaplakrika og hefur FH verið skráð sem heimalið í öllum bikarleikjum liðanna.