Stelpurnar í 3. fl urðu bikarmeistarar Norður- og Austurlands eftir að hafa unnið Tindastól í vítaspyrnukeppni.
Mikill vindur setti svip sinn á leikinn sem fór fram á Sauðárkróksvelli sunnudaginn 14. september. KA lék undan vindi í fyrri hálfleik. KA liðið var talsvert betra í fyrri hálfleik án þess að ná upp því spili sem þær geta náð. Það var ekki fyrr en á 37. mínútu að Anna Rakel Pétursdóttir setti boltann fram hjá markverði Tindastól og kom KA yfir. Á síðustu mínútu hálfleiksins átti Anna Rakel hornspyrnu sem endaði í samskeytunum fjær og út.
KA-liðið náði upp betra spili í seinni hálfleik og bar það árangur þegar að Margrét Árnadóttir komst ein gegn markmanninum og setti boltann í markið. KA því komnar í 2-0 og fátt í stöðunni að Tindastóll væri að fara gera eitthvað. Tindastóll náði þó að minnka munin gegn gangi leiksins á 69. mínútu og jafna í uppbótartíma með draumaskoti utan af kanti.
Heimastúlkur komust yfir í fyrri hálfleik framlengingar og útlitið ekki bjart fyrir okkar stelpur. Þegar öll von virtist úti tók Anna Rakel hornspyrnu sem endaði í hendi Tindastólsleikmanns og góður dómari leiksins dæmi vítaspyrnu. Anna Rakel er þekkt sem örugg vítaskytta enda setti hún boltann örugglega í hornið.
Líkt og hjá strákunum daginn á undan þurfti því að fara í vítaspyrnukeppni. Þar hafði KA betur á níundu spyrnu þar sem Anna Rakel, Harpa Jó, Margrét Árna, Kristín Brynjars, Vaka Þóris og Dagný Þóra skoruðu úr sínum spyrnum ásamt þvi að Harpa Jó varði fjórar spyrnur.
KA stelpurnar fögnuðu vel í leikslok enda kærkomið gull staðreynd.
Þjálfarar flokksins eru Egill Ármann og Björk Nóa.