BÍ/Bolungarvík - KA á morgun

Mynd/Þórir Tryggva.
Mynd/Þórir Tryggva.

Á morgun laugardag leggja okkar menn í langferð þegar að þeir ferðast til Ísafjarðar til að etja kappi við BÍ/Bolungarvík í 18. umferð 1.deildar karla. Djúpmenn eru í 4.sæti deildarinnar með 30 stig á meðan KA liðið er sem fyrr í því sjöunda með 23 stig. Leikurinn hefst kl. 14.00.

Djúpmenn hafa komið feikilega mikið á óvart í sumar og eru þegar að fimm umferðir eru eftir í miklum séns að komast upp um deild enda einungis þremur stigum frá toppsætinu. Heimavöllur Djúpmanna hefur reynst þeim vel í sumar og hefur verið mikið vígi. Liðið hefur fengið 18 af 30 stigum sínum í sumar á heimavelli.

Atkvæðamestur í liði Bí/Bolungarvíkur í sumar er Ben J. Everson en hann hefur skorað 8 mörk í 15 leikjum fyrir Djúpmenn. Næst markahæstur er Alexander Veigar Þórarinsson með 6 mörk. Einnig hefur markvörður þeirra Alejandro Munoz verið góður en hann var til að mynda valinn leikmaður 17. umferðar hjá Fotbolti.net.

Mikið fjör hefur verið í leikjum hjá BÍ/Bolungarvíkur í sumar og hafa verið skoruð að meðaltali 3,9 mörk í leikjum þeirra sem er mest í deildinni. Einnig hafa Djúpmenn fengið átta rauð spjöld í sumar sem eru einnig flest rauð spjöld í deildinni. Það má því búast við því að það verði mikið fjör í leiknum á morgun. Töluvert hefur verið um meiðsli í herbúðum KA upp á síðkastið og ekki allir leikmenn liðsins heilir og til taks á morgun.

Fyrri leik liðanna lauk með 1 - 0 sigri okkar manna þar sem Hallgrímur Mar skoraði gullfallegt mark úr aukaspyrnu af löngu færi.

Eins og fyrir alla leiki KA höfum við fengið vaska KA menn til að reyna að spá fyrir um úrslit leiksins á léttan máta en að þessu sinni eru þeir aðeins tveir. 

Spámenn umferðarinnar:

Hannes Rúnar Hannesson, KA-maður:

Leikurinn leggst bara nokkuð vel í mig enda held ég að það sé tímabært að KA liðið sýni sitt rétta andlit og endi sumarið á jákvæðum nótum. Ég er reyndar á því að spáin fyrir sumarið hafi verið nokkuð bjartsýn þar sem ekki mátti mikið út af bregða ekki stærri leikmannahóp. 

Við erum hins vegar með besta markmann og miðvarðapar deildarinnar og frábæra uppalda stráka í liðinu sem er gríðarlega jákvætt. Ég held að það muni ríða baggamuninum í þessum leik ásamt því að Nigel Quashie verður í banni sem veikir Skástrikið talsvert.

Ég spái hörkuleik þar sem lítið verður um opin marktækifæri. Það verður ekki fyrr en eftir 75 mínútna leik sem Gunnar Valur kemur okkur yfir eftir mikið klafs í teignum í kjölfarið á horni. Heimamenn leggjast í þunga sókn á lokamínútunum en þá poppar Andrés Vilhjálms upp með 2-0 mark eftir vel útfærða skyndisókn í leikslok. 

Við erum því að tala um góðan 2-0 sigur á erfiðum útivelli þar sem Atli Sveinn verður maður leiksins en hann á eftir að hirða einhverja 30-40 skallabolta í leiknum.

Áfram KA

Óskar Bragason, KA-maður:

Þetta verður þægilegur 2 - 0 sigur okkar manna. Djúpmenn byrja af krafti og ætla að keyra yfir norðurlandsstórveldið á fyrstu mínútunum en Sandor heldur okkur á flotti með tveimur góður vörslum.

Snúningspunkturinn verður svo á 13. mín þegar Nigel Francis Quashie fær sólsting og þarf að hætta leik. Stákarnir ganga á lagið og ná forustunni á 27. mín með laglegu skallamarki Atla Sveins eftir hornspyrnu. Eftir þetta sjá andstæðingarnir ekki til sólar (sem er reyndar gott fyrir Quashie með sólstinginn) og um einstefnu verður að að ræða það sem eftir er leiks. 

Mörg dauðafæri munu fara forgörðum áður en Ævar Ingi skorar á 77. mín með hnytmiðuðu skoti niðri í fjærhornið frá vítateigslínu hægra megin. Leikurinn fjarar síðan út og góður sigur okkar manna staðreynd. Reyndar vill ég bæta við að ef svo ólíklega vildi til að Fannar Hafsteins fengi nokkrar mín í senternum þá kæmi þriðja markið sennilega.


Leikurinn verður í beinni útsendingu samkvæmt heimasíðu Djúpmanna hjá Vestfirðingum á slóðinni http://www.kfitv.is/live . Dómari leiksins á morgun verður Sigurður Óli Þórleifsson og honum til aðstoðar verða þeir Andri Vigfússon og Bjarki Óskarsson.

Áfram KA !