Freyr Alexandersson þjálfari kvennalandsliðs Íslands í knattspyrnu gaf í dag út hópinn sem mætir Þýskalandi og Tékklandi í lokaleikjum undankeppni HM í september. Í hópnum eru tveir fulltrúar frá Íslandsmeistaraliði Þórs/KA en það eru þær Anna Rakel Pétursdóttir og Sandra María Jessen.
Fyrir leikina er Ísland í efsta sæti riðilsins en stigi á eftir okkar liði kemur Þýskaland, aðeins efsta sætið í riðlinum gefur öruggt sæti í lokakeppnina. Það er því gríðarlega mikið undir þegar liðin mætast þann 1. september næstkomandi. Með sigri í leiknum tryggir Ísland sætið á HM en með jafntefli tryggir liðið HM sætið með sigri á Tékkum í lokaleiknum.
Það verður mjög spennandi að fylgjast með liðinu í lokaleikjunum tveimur enda allt undir. Við óskum Önnu Rakel og Söndru Maríu að sjálfsögðu til hamingju með að vera í hópnum sem og góðs gengis í þessum stórleikjum.